Niðurstöður – Hvað er spunnið í opinbera vefi 2015?

Úttektin var nú framkvæmd í  sjötta sinn en hún hefur farið fram annað hvert ár frá árinu 2005 – það er því 10 ára afmæli núna. Tilgangurinn er að meta opinbera vefi og bera saman, bæði með tilliti til þróunar en einnig milli stofnana.  Eins hefur það sýnt sig að úttektin er mikilvægur stuðningur við þróun rafrænnar þjónustu. Framkvæmdin var með svipuðu sniði nú og fyrri ár.
255 vefirnir ríkisstofnana og sveitarfélaga voru skoðaðir og í framhaldinu fengu tengiliðir stofnana aðgang að sínu svæði á vef þar sem matið var birt og þeir gátu gert athugasemdir. Tengiliðir svöruðu einnig spurningum um vefinn og sína stofnun. Matið sjálft fór fram í byrjun september og í framhaldinu var könnunin opin fyrir svörun í um 2 vikur.

Svarhlutfall var nokkuð lægra nú en áður eða um 74% á heildina. Þetta eru nokkur vonbrigði og umhugsunarefni, en 66 stofnanir svara ekki. Við lítum svo á að það felist ýmis tækifæri í því að taka þátt og gagnlegt fyrir vefstjóra að nýta sér þau. En það skal tekið fram að allir vefirnir eru teknir út og metnir, þrátt fyrir að svör berist ekki frá viðkomandi stofnun.

Á heildina litið eru niðurstöður jákvæðar, þó þróunin sé hæg.

Heildarmat eftir árum - 2005-2015

Heildarmat eftir árum – 2005-2015

Þessi myndin sýnir heildarmat eða einkunn frá því að úttektin var fyrst framkvæmd árið 2005. Hér eru allir þættir matsins dregnir saman í eina einkunn. Við sjáum að þróunin er jákvæð og nokkuð gott stökk upp á við 2013, en hækkunin nú var tæpt stig. Heildarmat nú eru tæp 72 stig af 100 mögulegum.

 

 

 

 

Niðurstöður gátlista og þjónustu eftir árum

Niðurstöður gátlista og þjónustu eftir árum

 

Hér má svo sjá niðurstöður úr gátlistum og samanburð  á milli ára. Ánægjulegt er að sjá að þróunin er almennt jákvæð, þó ekki séu þetta stór stökk upp á við frá síðustu úttekt.
Innihaldið er nú í rúmum 78 stigum, nytsemin í rúmum 82 stigum, aðgengið 61 stig og þjónustan í 65,5 stigum. Aðgengismatið lækkar aðeins frá því sem var 2013 eða um 2 stig sem varla telst verulegt.

 

 

Aðgengismatið er kannski sá þáttur í úttektinni sem hefur verið minnst gagnsær en nú er unnið í því að skjala aðgengishlutann, þar sem útskýrt er hvernig vefirnir eru skoðaðir út frá hverju atriði í gátlistanum. Þessar leiðbeiningar verða aðgengilegar á UT vefnum í desember. Þannig verður að á allra færi að meta eigin vefi út frá aðgengi.

Samantekt

Á heildina litið er þróunin jákvæð, þó hækkunin sé óveruleg eða tæpt stig.

  • Við getum gert betur í þjónustunni – sérstaklega ættu sveitarfélögin að geta komið sterk inn hér.
  • Allir ættu að geta fengið fullt hús hvað varðar innihald.
  • Það er mikilvægt að huga vel að notendavæni. Helsti þröskuldurinn nú, eins og síðast, er hvernig vefir virka á ólíkum tækjum og smærri skjám. Hér þarf að fylgja þróun í tækni og kröfum notenda.
  • Við verðum að huga vel að aðgengismálunum og passa upp á það að missa ekki dampinn. Þróunin hefur verið mjög jákvæð hingað til og við þurfum að halda áfram á sömu braut.
  • Kröfur notenda um þátttöku og að fá að hafa áhrif eiga bara eftir að aukast og nauðsynlegt er að takast á við það.

Hver og ein stofnun ætti að skoða sínar niðurstöður út frá eigin markmiðum og forsendum.
Nýtum þau tól og fræðsu sem eru tiltæk  – s.s. þessa úttekt, vefhandbókina, vefmælingar o.s.frv.
Markmiðið hlýtur að vera að gera betur  – aukum gæði þjónustunnar og  vefjanna!

Hægt er að nálgast skýrslu um úttektina og niðurstöður á UT vefnum.
Þar er að finna mælaborð sem dregur saman helstu niðurstöður en einnig er hægt að skoða niðurstöður fyrir einstaka stofnanir og bera saman.

island.is og akranes.is bestu vefirnir

Í lok UT-dagsins voru afhentar viðurkenningar fyrir besta ríkisvefinn og besta sveitarfélagsvefinn. Fimm vefir voru tilnefndir í hvorum flokki.

Flest stig í flokki ríkisvefja  (stofnanir, ráðuneyti, ohf, annað):
Ríkisskattstjóri (99 stig)
Neytendastofa (98 stig)
Ísland.is (98 stig)
Orkustofnun (97 stig)
Samgöngustofa (97 stig)

Flest stig í flokki sveitarfélagavefja:
Seltjarnarneskaupstaður (94 stig)
Kópavogsbær (88 stig)
Akraneskaupstaður (87 stig)
Fjarðabyggð (87 stig)
Sveitarfélagið Skagafjörður (87 stig)

Í flokki ríkisvefja hlaut vefurinn Ísland.is viðurkenninguna og tók Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, á móti viðurkenningunni ásamt nokkrum samstarfsmönnum.

Í flokki sveitarfélagavefja var vefur Akraneskaupstaðar hlutskarpastur og tók Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri við viðurkenningunni fyrir hönd bæjarins.