Tölvutæknin leysir ekki allt


Fyrirtækið Sjá – viðmótsprófanir er búið að vera til í hálft annað ár. Það sérhæfir sig í að gera nytsemismælingar og prófanir á viðmóti fyrir vefsvæði, hugbúnað, farsímaglugga og í raun á öllu sem stjórnast af tölvuviðmóti.
 

Sjá stelpurnar á skrifstofunni í IngólfsstrætinuÞær Áslaug, Sirrý og Jóhanna þekkja vel til, en segja lausnir ekki alltaf felast í rétta kerfinu, viðmótið skipti miklu máli. SJÁ viðmótsprófanir er í eigu Áslaugar Maríu Friðriksdóttur, Jóhönnu Símonardóttur og Sirrýar Hallgrímsdóttur. Þær segja að á þeim tíma sem fyrirtækið hafi verið til hafi starfsemi þess breyst töluvert, í takt við þarfir markaðarins. Sjá er hlutlaus aðili sem bæði starfar með fyrirtækjum með mikla starfsemi á vefnum og með hugbúnaðarframleiðendum.
 

Eigendurnir hafa mikla reynslu af því að starfa í hugbúnaðariðnaðinum og þekkja því vel til hans. Þær telja að nokkuð vanti upp á skilning milli fyrirtækja í þeim geira og þeirra fyrirtækja sem kaupa hugbúnað. Ásamt því að gera úttektir á viðmóti og nytsemi tölvubúnaðar ýmiss konar hafa þær því oft verið fengnar til að annast útboð á tölvu- og hugbúnaðarþjónustu fyrir fyrirtæki. Þær segja að þeirra hlutverk felist því oftar en ekki í því að leiða saman fyrirtæki sem vantar lausn á ákveðnu vandamáli og t.d. hugbúnaðarhús sem hefur viðeigandi lausn. „Það hefur vantað skilning á milli fyrirtækja sem reka vefi og hugbúnaðarfyrirtækja. Við erum því eins konar túlkar á milli þessara aðila“, segir Sirrý.
 

Þegar þarfir fyrirtækis liggja fyrir er hægt að leita eftir tilboðum í tiltekið verk en að sögn Áslaugar liggur oft mikil vinna að baki slíkum útboðum. „Það hefur komið okkur nokkuð á óvart hversu stór útboðsþátturinn er orðinn af starfseminni,“ segir Áslaug. Hún segir fyrirtæki leita í auknum mæli eftir aðstoð þegar þau vilja bjóða út ákveðna þjónustu er varðar vefmál eða hugbúnað af einhverju tagi. Sjá sjái þá um að útbúa útboðsgögn og ráðleggja fyrirtækinu um hvaða hugbúnaður eða veflausn gæti hentað.

Þörf fyrir óháðan aðila

„Það er greinilegt að þörfin fyrir fyrirtæki eins og okkar hefur verið til staðar á fleiri sviðum en við töldum“, segir Sirrý. Hún segir að það hafi vakið athygli þeirra hversu tilboðin sem þær séu að vinna úr séu oft á breiðu bili. Fyrirtækin hafa ekki haft þekkingu til að greina tilboðin í sundur. Oft hafa hugbúnaðarfyrirtækin heldur ekki nægar upplýsingar til að vinna eftir og vita ekki hvað fyrirtækin eru að biðja um. Því skýrari sem kröfurnar eru og því betri sem undirbúningsvinnan er því meira er hægt að fá út úr útboðinu. „Við skoðum búnaðinn hjá hverjum og einum og erum í mjög góðu sambandi við mörg hugbúnaðarfyrirtæki“, segir Sirrý.
Þær eru sammála um að lausnirnar felist langt því frá eingöngu í því kerfi eða þeim veflausnum sem stuðst er við. Að vera að kaupa nýjar og nýjar lausnir er ekki að virka. „Fyrirtækin vilja vita hvernig þau geta fengið sem mest út úr vefnum sínum og við getum hjálpað þeim við það“, segir Sirrý. Áslaug bætir við að þær upplýsingar liggi allar hjá viðkomandi fyrirtæki en oft vanti aðferðirnar til að ná því fram. „Svarið liggur alltaf í starfsfólkinu og þeim sem þekkja vefinn best en ekki í einhverju kerfi“, segir hún.
 

Þær segjast hafa séð á sínum tíma mikla þörf fyrir ráðgjafafyrirtæki eins og Sjá sem væri algjörlega óháð allri hugbúnaðarframleiðslu og telja ljóst að sú þörf sé enn til staðar. „Okkur fannst vanta óháðan aðila. Reksturinn miðar ekki að því að selja ákveðna vöru eða þjónustu. Við gerum úttekt á ákveðnum kerfum sem snýst bara um það sem kemur sér best fyrir viðkomandi fyrirtæki,“ segir Jóhanna.

Notendur bestu dómararnir

„Það er ekki til betri ráðgjöf en að láta notendur sjá hvað má betur fara. Besta mælingin sem við höfum á það hversu vel fjárfestingar í vefmálum fyrirtækja eru að skila sér er sú að fyrirtæki sem hafa verið hjá okkur koma til okkar aftur“, segir Áslaug.
Prófunarferlið hjá Sjá hefst jafnan á því að þarfir viðkomandi fyrirtækisins eru metnar. Þá er valið í svokallaða notendahópa út frá markhópi kerfisins eða fyrirtækisins, eftir því sem við á, og notendur fengnir til að fara í gegnum markvisst prófunarferli. Þartilgerður hugbúnaður tekur svo upp það sem notendur gera og segja og útfrá því er viðmótið greint. Áslaug segir þessar aðferðir vera þekktar erlendis en Sjá sé líklega eina fyrirtæki sinnar tegundar hér á landi. Hún segir að prófanir og úttektir Sjá miði að því að auka nytsemi og bæta hvers kyns tölvuviðmót. Með þeim aðferðum sem beitt sé megi sjá hvort hönnunin skili tilætluðum árangri eða ekki, hvort sem um er að ræða hugbúnað eða vefsvæði fyrirtækja. 
 
„Þegar allt kemur til alls þá skiptir engu máli hvaða tækni er undirliggjandi heldur snýst í raun allt um hvað notandinn er að fá út úr þessu“, segir Sirrý.