10 algengustu mistökin varðandi aðgengi á vefjum.

Webcredibles í Bretlandi hefur tekið saman nokkra punkta varðandi algeng mistök þeirra sem sjá um aðgengismál vefja en við hjá SJÁ rekumst einnig oft á sams konar mistök hér á landi.

Þar má nefna atriði eins og að setja ALT texta á allar myndir, hvort sem um er að ræða skreytimyndir (mynd af blómi þegar blómið skiptir ekki máli fyrir efni vefjarins) eða mikilvægar myndir (t.d. auglýsingu um opnunartíma). Of margir ALT textar tefja verulega fyrir blindum notendum með skjálesara sem þurfa að hlusta á upptalningu á öllu efni, þ.m.t. upplýsingar um blóm og fleira! Einnig minnast webcredibles á úrelt atriði eins og þau að setja texta á milli orða til að aðgreina þau sem og að setja alltaf texta í reiti forma. Slíkt átti við hér í gamla daga þegar skjálesararnir kröfðust ýmissa lausna til að þeir virkuðu almennilega á vefjum. Skjálesarar verða sífellt betri þó ekki séu þeir fullkomnir. Fleiri atriði eru rakin í þessari samantekt frá Webcredibles sem er sérlega áhugaverð og þess virði að skoða nánar.