Mistök í markaðsetningu með tölvupósti-hljóma þau kunnugleg?

Tölvupósturinn (ef miðað er við lítil fyrirtæki) er enn þá ein áhrifaríkasta leiðin til markaðssetningar. Hún er ódýrari, mælanlegri og áhrifaríkari en póstur sem fer hina hefðbundnu leið. Samkvæmt könnunum skilar auglýsingaherferð í tölvupósti þrisvar til fimm sinnum þeirri upphæð sem lagt var í herferðina. Mikilvægt er þó að forðast augljósar villur því þær hafa verulega slæm áhrif á hversu vel tekst til. Í nýrri og áhugaverðri grein frá e-consultancy er að finna nokkur atriði sem hafa ber í huga þegar forðast á mistök við markaðsetningu með tölvupósti:


Algengustu mistökin í markaðssetningu með tölvupósti og hvernig á að forðast þau:

Frá / Inntak tölvupósts

Mikilvægt er að tölvupósturinn komi frá fyrirtækinu sjálfu (ekki starfsmanni) svo skýrt sé hvaðan tölvupósturinn kemur. Inntak tölvupósts á að vera skýrt t.d. „15% afsláttur af tölvum”. Notendur eru fljótir að dæmi tölvupóst út frá innihaldi og sigta út ruslpóst ef inntakið er of „loðið”. Gætið þess einnig að inntakið sé ekki of langt.

Tölvupóstur sendur of títt

Ef tölvupóstur er sendur of oft, er hætta á því að viðskiptavinir líti fram hjá honum eða jafnvel eyði honum án þess að lesa hann. Gætið þess að trufla þá ekki um of með of mörgum tölvupóstum. Mikilvægt er að miða við væntingar viðskiptavina þ.e. látið þá vita við skráningu hversu oft má vænta tölvupósta.

Að prufukeyra ekki út frá mismunandi póstforritum og síum

Tölvupóstar líta mismjafnlega út eftir því hvaða tölvupóstforrit er notað til að skoða þá. Til dæmis gæti Microsoft Outlook sýnt allt annað útlit en t.d. Gmail eða Hotmail. Stillingar notenda koma þar líka inn í (sumir vilja engar myndir svo dæmi sé tekið). Einnig er mikilvægt að gera athugun á því hvort að tölvupósturinn komist í gegnum ruslpóstvörn helstu tölvupóstforrita. Ef tölvupósturinn þinn fer í ruslið, er hann til lítils gagns.

Óljós markmið

Mikilvægt er að viðskiptavinir fái skýra hugmynd um hlutverk tölvupóstsins. Einnig er mikilvægt að þeim sé boðið upp á að smella á tengla á viðeigandi stöðum og að skýr tenglaheiti séu í boði. „Afsláttur á tölvuviðgerðum“ er mun skýrara tenglaheiti en „smella hér“. Notendur skima fljótt yfir efni tölvupósta og ef ekki er skýrt hvað í boði er, missir tölvupósturinn marks. Hvort sem um er að ræða tenglar á heimasíður, tenglar á skjöl til niðurhals, tenglar á vörur er mikilvægt að skýrt sé hvernig notendur geta nálgast markmið sitt.

Villur í tölvupósti

Stafsetningarvillur, málfræðivillur, tenglar sem virka ekki o.fl. benda til þess að ekki hafi verið vel unnið til verks. Látið lesa efni tölvupóstarins yfir ekki bara einu sinni heldur oft og helst af mismunandi aðilum. Fáið einnig einhvern til að prófa tenglana.

Of langt afskráningarferli

Ekki gera viðskiptavinum erfitt fyrir varðandi afskráningu af póstlista. Ef viðskiptavinir lenda í vandræðum við afskráningu (of flókið ferli, ónotendavænt, ekki augljóst hvar á að afskrá sig), merkja þeir tölvupóstinn í framtíðinni sem ruslpóst sem aftur getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir orðspor fyrirtækisins.

Að senda ekki út frá markhópum

Að senda út fjöldapóst á „alla” án þess að greina markhópa hefur í för með sér að efni tölvupóstsins á aðeins erindi til hluta viðskiptavina og vangaveltur verða um hvers vegna þeir skráðu sig á póstlista í fyrsta lagi. Niðurstaðan er sú að sendandi lendir í ruslpóstinum og/eða viðskiptavinir eru óánægðir. Tölvupóstar miðaðir að markhópum hafa hærri opnunartíðni (fleiri sem smella á tengla o.þ.h.) svo til mikils er að vinna. Mikilvægt er að tölvupósturinn sé miðaður út frá viðskiptavinum bæði hvað varðar efnislegt inntak og fyrri hegðun viðskiptavina (sbr. Amazon).

Að senda ekki prufeintak

Mikilvægt er að senda út prufueintök af tölvupóstinum. Góð hugmynd er að senda nokkra mismunandi tölvupósta á vel valda einstaklinga. Þannig fást upplýsingar um hvaða tölvupóstur kom best út og hvers vegna. Einnig má með þessum hætti komast hjá stórum mistökum sem oft vilja verða þegar tölvupóstur er sendur á „alla” án þess að hafa verið prófaður.