Myspace vandamálið

Í mjög áhugaverðri grein eftir Joshua Porter á Think Vitamin er fjallað um það sem kallast „Myspace vandamálið„. Myspace er vefsíða sem stundum er kölluð „félagsmiðstöðin á Netinu“ og er aðallega sótt af yngri kynslóðinni en einnig hefur hún verið vinsæl hjá tónlistarfólki sem er að þreifa fyrir sér í tónlistarheiminum.

Í greininni fjallar Porter um hvernig vera megi að það sem flestir (bæði hönnuðir, mætir vefgúrúar og jafnvel almenningur) séu sammála um að sé ljótt [kraðaksleg hönnun, ljótt letur, mismunandi leturgerðir, ljótir litir o.s.frv.], virki jafnvel og raun beri vitni. Vefurinn gengur gegn öllum lögmálum hönnuða og nytsemisfræðinga varðandi einfaldleika, litasamsetningar o.fl. Vefurinn þykir ekki aðeins ljótur heldur óaðgengilegur, ónotendavænn, pirrandi og óþægilegur fyrir augað. Í greininni er spurningunni: „Þarf vefsíða að vera vel hönnuð til að vera vinsæl“ svarað. Í stuttu máli er svarið nei því vinsældir Myspace á sér enga hliðstæðu og engin vefsíða hefur vaxið jafn hratt í sögu Netsins. Ljótleiki eða slæm hönnun hefur því ekkert með vinsældir vefjarins að gera. Porter rekur að mikilvægt sé að staldra við og horfa á Myspace fyrir hvað það er, ekki hvað Myspace gæti hugsanlega orðið. Ef góð hönnun er mælikvarði á hversu vel hlutirnir virka, er það sem virkar vel þá ekki góð hönnun?