Fyrir nokkrum mánuðum síðan greindum við frá því að nýr vefur BBC væri kominn í loftið. Endurhönnun vefjarins þykir hafa heppnast einstaklega vel. Nú er að koma í ljós að vefur BBC fór 36 milljónir punda fram yfir kostnaðaráætlun. Ástæðan segja þeir liggja hjá „lélegri stjórnun“ og að „yfirsýn yfir fjármál hafi ekki verið nægilega markviss“. Hmmm. Maður skyldi ætla það. En hvað er hægt að gera til að kostnaður fari ekki langt fram úr?
Hér eru nokkur gáð ráð frá SJÁ sem geta hjálpað til við að sporna við því að hlutirnir fari úr böndunum með þessum hætti.
Hin fjögur V:
Vefstefnan: Mikilvægt er að setja niður vefstefnu sem rammar inn vefinn og þróun við hann til framtíðar. Vefstefna á að vera lifandi skjal sem stjórnendur vefjarins fylgja og vinna eftir. Greinið ykkar þarfir út frá ykkar forsendum, horfið inn á við en einnig til viðskiptavinanna og hvernig best er hægt að þjóna þeim.
Vefumsjónarkerfi: Veljið rétt vefumsjónarkerfi. Lykilatriðið er að vefumsjónarkerfið henti þörfum fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Ekki láta tæknina ráða ferðinni, tæknin á að vinna með ykkur. Mikilvægt er að setja niður kröfur til kerfisins í samræmi við ykkar þarfir. Eitthvað sem allt of margir flaska á.
Verkefnastjórn: Það er lykilatriði að halda vel á spöðunum í framleiðsluferlinu, fylgja vefstefnunni og settri tíma- og kostnaðaráætlun. Góður verkefnastjóri getur greint vandamálin fljótt og tekið á þeim áður en þau hafa of alvarlegar afleiðingar.
Viðmótsprófanir: Gerið ráð fyrir viðmótsprófunum og rýni inn í fjárhagsáætlun, það er lykilatriði að framkvæma prófanir á vefnum á meðan hann er í þróun. Að fá endurgjöf frá notendum í gegnum allt ferlið er gríðarlega árangursrík og ódýr leið til að sjá strax stór mistök.