Þú ert ekki viðskiptavinurinn

Við skönnum ekki vefsíður…við veljum ákveðna hluta vefjarins til að lesa. Þetta er fyrirsögn nýlegrar greinar af vef Giraffe. Í greininni lýsir höfundur prófunum með vef fyrirtækis og staðsetningu efnis á vefsíðu. Af þeim 15 sem tóku þátt var aðeins einn sem sá efnið í meginmáli. Aðrir annað hvort skoðuðu vinstri dálk eða fóru í leitina.

Niðurstöður komu höfundi þó ekki á óvart enda skannar fólk nánast aldrei allt efni vefsíðu í einu heldur velur búta úr til að lesa og skannar síðan þá hluta. Einnig kom fram að þátttakendur bjuggust við að finna leiðarkerfi vinstra megin. Til dæmis ef verið er að leita að vöru, myndu þátttakendur búast við því að finna hana í leiðarkerfi vinstra megin, undir eins konar vörulista. Hins vegar má segja að efni sem birt er í meginmáli geti hreinlega „týnst” þar sem notendur eru vanir að finna það sem þeir leita að, vinstra megin. Hægri dálkur hins vegar er yfirleitt notaður undir auglýsingar og er því oft algjörlega horft fram hjá honum í mörgum tilvikum.

Væntingar notenda gegna mikilvægu hlutverki hér og afar þýðingarmikið er að spyrja notendurna sjálfa hvar þeir búist við því að finna það sem þeir leita að. Gott getur verið að henda upp grófri skissu af útliti og leiðarkerfi vefjarins og hreinlega prófa notendur á því stigi. Það er einföld og ódýr leið til að komast hjá hönnunarmistökum. Fyrsta regla er sem sé að hafa í huga að ÞÚ ert ekki viðskiptavinurinn á vefnum þínum og endurspegla þínar væntingar um vefinn ekki væntingar viðskiptavinarins.