Enska er ekki það sama og enska

Jakob Nielsen kemur inn á skemmtilegan punkt í nýjasta pistli sínum á Alert Box þ.e. hvenær eigi að nota ameríska ensku (American English) og svo breska ensku (British English). Við Íslendingar þurfum reyndar lítið að velta fyrir okkur þessu vandamáli og þó, við sem þjóð höfum gert víðreist í Netheimum og er þetta því mál sem líklega snertir mörg okkar.

Þekkt er að Bretar verði önugir yfir því að sjá ameríska fánann sem táknmynd fyrir enskt tungumál á alþjóðlegum vefjum og sama með Ameríkana sem verða ekki par hrifnir af því að þurfa að smella á breska fánann til þess að lesa sína tungu. Ekki eru nefnilega allir sem átta sig á því að stafsetning í amerísku og bresku er ekki eins t.d.: colour eða color, behavior eða behaviour, theater eða theatre o.s.frv. Einnig er þekkt að Bretar og Ameríkanar noti mismunandi orð yfir sama hlutinn t.d. segja Amaríkanar elevator, trolley, pants en Bretar lift, cart og trousers. Football er svo eitthvað sem Bretar og Ameríkanar rugla með endalaust og Footbal (Ruðningsbolti) í Ameríku er hreint ekki sami hluturinn og í fótbolti Bretlandi (fótbolti).

En hvað er til ráða? Ekki er hægt að nota orðabók (væri nokkuð hallærislegt), ekki er hægt að vera með tvær útgáfur (enn þá hallærislegra). Notendur eru nefnilega kröfuharðir á sitt tungumál og taka eftir því ef ruglað er með stafsetningu og venjur tungumálsins. Best er að halda sig við eina útgáfu. Ef vefurinn er ætlaður fyrir Ameríkumarkað er betra að nota ameríska stafsetningu nema verið sé að selja t.d. breskar vörur eingöngu eða jafnvel vörur sem eru miðaðar sérstaklega að Bretum

Jakob bendir á eina hugsanlega lausn. Að nota það mál eingöngu sem land vefsíðunnar tilheyrir. Þetta flækist þó ef seljandi vöru vill vera í alþjóðlegum gír og vill ekki vera bundinn einhverri ákveðinni þjóð. Fleiri skemmtilegar pælingar má skoða í grein Jakobs sem við mælum með til aflestrar fyrir þá sem velta þessum málum fyrir sér.