Að gera mikið úr litlu

Webcredibles gefa í nýrri grein sinni jákvæðan tón í allri kreppuumræðunni. Greinin nefnist á íslensku; Hvernig má gera sem mest úr vefnum þínum í kreppunni.

Þeir tiltaka nokkur atriði eins og að þekkja neytendur (viðskiptavini) og hvað þeir vilja. Að safna upplýsingum um notendur og markmið þeirra er afar mikilvægt til að geta mætt þörfum þeirra. Einnig benda þeir á að leiðarkerfi og leitarvélin verði að vera skotheld enda hjarta hvers vefjar. Að prófa tillögur á fyrstu stigum hönnunar nefna þeir einnig sem afar mikilvægt tól til að gera vefi sem besta. Eins og við hjá SJÁ gerum gjarnan, er gott að fara yfir skissur í byrjun hönnunarferlis, jafnvel þó þær séu rissaðar með blýanti á pappír. Í megindráttum má segja að það að eyða svolitlu í vefinn einmitt á þessum tíma sé mikilvægt, því vefurinn er öflugt sölutæki ef vel hefur tekist til. Ekki einungis er mikilvægt að dragast ekki aftur úr samkeppnisaðilum heldur þurfa vefsíður fyrirtækja að vera undir það búin þegar efnahagsástandið lagast. Ekki er verra að vera á undan hinum þegar það gerist!