Úttekt á tæplega 300 opinberum vefjum

Forsætisráðuneytið stendur um þessar mundir fyrir því að í þriðja sinn eru opinberir vefir teknir út með tilliti til rafrænnar þjónustu. Úttektin nær til ytri vefsvæða ríkisstofnana, ráðuneyta, sveitarfélaga, sérvefja og opinberra hlutafélaga. Úttektin fór áður fram 2005 og aftur 2007. Sjá ehf. var fengið til að framkvæma og hafa umsjón með verkefninu.

Tilgangurinn með úttektinni er að fylgjast með hvernig þróun opinberra vefja hefur verið síðan árið 2005 þegar niðurstöður lágu fyrir í fyrsta skiptið. Nú bætist enn við sýnina á þróun vefjanna sem gefur gott tækifæri til að sjá enn betur hvernig málin hafa þróast. Auk þess að nota tékklista og spurningar sem áður hafa verið notaðar var nú einnig bætt við nýjum spurningum í takt við það sem helst er að gerast á vefjum í dag og með tilliti til notendavænnar og rafrænnar þjónustu.

Rafræn könnun hefur verður send til tengiliða vefjanna sem í úttektinni eru. Nokkurn tíma gæti tekið að svara öllum spurningunum þar sem um einhverja gagnaöflun gæti verið að ræða og tengiliðir eru beðnir að hafa það í huga. Viljir þú fá nánari upplýsingar um úttektina má hafa samband við Áslaugu Friðriksdóttur eða Jóhönnu Símonardóttur hjá Sjá í síma 511-3110 eða með tölvupósti sja@sja.is.

Skilafrestur könnunarinnar er til 28. ágúst en gert er ráð fyrir að niðurstöður muni liggja fyrir á haustmánuðum.