Sjá er fyrirtæki sem sérhæfir sig í nytsemismælingum (enska. usability testing) og úttektum á viðmóti (enska. interface). Fyrirtækið tekur að sér að framkvæma prófanir og veitir ráðgjöf sem miðar að því að bæta hönnun viðmóts og þannig spara kostnað vegna endurhönnunar, gera kerfi skilvirkari og nytsamari, og síðast en ekki síst að auka líkurnar á vinsældum. Starfsemi af þessu tagi er vel þekkt erlendis, einkum í Bandaríkjunum þar sem stærstu fyrirtækin reka yfirleitt eigin tilraunastofur.
Sjá tekur einnig að sér þarfagreiningar og leiðbeinir fyrirtækjum við að móta vefstefnu.
Hvenær eiga nytsemismælingar við?
Nytsemismælingar eða -prófanir eiga við á öllum stigum framleiðslu og þróunar vefja og hugbúnaðar. Það er ljóst að því fyrr sem nytsemismælingar eru gerðar í framleiðsluferlinu þeim mun hagkvæmari verður framleiðslan, enda mun ódýrara að lagfæra það sem betur má fara áður en kerfið er tilbúið eða farið í framleiðslu. Þrátt fyrir þetta er nauðsynlegt að halda prófunum áfram eftir að kerfið hefur verið gefið út, ekki síst þegar það er í örri þróun og tekur miklum breytingum á skömmum tíma. Slíkar viðhaldsprófanir eiga við áður en og eftir að breytingar hafa verið gerðar eða þegar nýjum liðum hefur verið bætt inn. Í þeim tilvikum verður að leggja áherslu á að meta þau áhrif sem breytingarnar hafa eða geta haft á hegðun notenda.
- Hönnunartillögur
Þegar framleiða á nýja vöru, þ.m.t. vef eða hugbúnað, er fyrsta skrefið eftir að hugmynd kemur upp að greina verkefnið og útbúa hönnunartillögur. Hönnunartillaga getur verið allt frá grófri lýsingu á virkni kerfisins til nákvæmari þátta eins og ferilgreiningar/skjámyndaflæðis, útlistunar á leiðakerfi o.s.frv. Hægt er að gera prófanir á þessum þáttum áður en byrjað er á framleiðslunni og oft á tíðum spara þessar prófanir fyrirtækjum ómæld útgjöld vegna breytinga seinna í ferlinu. Þeir sem til þekkja í framleiðslu hafa eflaust oft heyrt talað um að breytingar sem gerðar eru eftir að búið er að framleiða kerfi eru 10 sinnum dýrari en breytingar sem gerðar eru áður en framleiðslan hefst. - Allir nýir vefir eða frumgerðir vefja
Bráðnauðsynlegt er að framkvæma prófanir áður en vefur er tekinn í notkun, það er áður en markaðssetning hefst. Upplifun notenda hefur úrslitaáhrif á vinsældir vefja og kerfa og með prófununum fæst mat á hvernig til hefur tekist í hönnuninni og hvort vefurinn eða kerfið er tilbúið í markaðssetningu. Markaðssetningin ein og sér er gagnslaus ef vefurinn er ekki nytsamur, því að ekki er líklegt að notandinn skili sér í annað sinn hafi hönnunin ekki tekist sem skyldi jafnvel þótt auglýsingar auki umferðina inn á vefinn. - Allar viðbætur og stærri breytingar
Nauðsynlegt er að prófa allar viðbætur og einnig allar stærri breytingar sem gerðar eru. Það getur jafnvel verið gagnlegt að prófa tillögur að viðbótum eða breytingum áður en hafist er handa við að framkvæma þær en meta þarf hverju sinni hvort það á við eða ekki.
Nytsemismat
Nytsemismat (notendaprófun) er gagnleg aðferð til að kanna hvernig bæta má kerfi, bæði hvað varðar virkni og viðmót. Nytsemismat skilar niðurstöðum um hvernig er hægt að laga kerfið að þörfum og væntingum notenda þess ásamt mati notandans á kerfinu. Fylgst með hvernig samskipti notenda við kerfið ganga og er talið að sú leið skili nákvæmari og haldbærari upplýsingum en spurningalistar sem notendur fylla sjálfir út.
Allt of mikið er um viðmót sem erfitt er að læra á og sem eru beinlínis villandi. Þetta kallar á mikla þörf fyrir ítarlegar leiðbeiningar sem skila misjöfnum árangri. Með því að nota nytsemismælingar í öllu hönnunarferlinu er hægt að komast að því hvernig betur má mæta þörfum notandans og auka nytsemi viðmótsins. Því fyrr í hönnunarferlinu sem byrjað er að skoða hvernig hægt er að kynnast þörfum notandans þeim mun betra. Mikilvægt er að safna sem viðtækustum upplýsingum um notendur eða viðskiptavini fyrirtækjanna til að byggja á ákvarðanir um hönnun og uppsetningu vefjarins. Sjá veitir fyrirtækjum aðstoð við að finna nytsömustu leiðina fyrir notendur viðmótsins og laga þannig uppbyggingu og vinnuferli viðmótsins að væntingum notandans.
Sérfræðingamat
Sérfræðingamat er notað í sama tilgangi og nytsemismat, til að varpa ljósi á þau vandamál sem koma upp við notkun kerfa og benda á leiðir til úrlausna. Báðar þessar aðferðir eru í dag notaðar af aðilum sem sérhæfa sig í slíkum rannsóknum. Munurinn á nytsemismati og sérfræðingamati er sá að sérfræðingar fara yfir kerfið og skila ábendingum um það sem betur má fara. Helsti kostur sérfræðingamatsins er að það er ódýrara í framkvæmd en nytsemismatið. Helstu ókostirnir eru hins vegar þeir að sérfræðingar kunna að finna vandamál sem trufla hinn almenna notenda á engan hátt og getur því kallað á óþarfa úrbætur á kerfinu. Sérfræðingamat á því helst að nota áður en framleiðsla hefst og sé það rétt notað getur það komið í veg fyrir að gera þurfi miklar breytingar á seinni stigum.
- Stutt úttekt – Viðmót kerfis er skoðað út frá notendasjónarmiðum. Farið er yfir virkni og aðra þætti kerfisins og ábendingum skilað um það sem betur mætti fara ásamt tillögum að breytingum ef þörf þykir. Stutt úttekt hentar vel til þess að sjá stöðu kerfisins. Með framkvæmd slíkrar úttektar er hægt að fá mat á því hvort hönnun er nægilega nytsöm/notendavæn eða hvort gera þurfi breytingar á viðmóti áður en lengra er haldið.
- Matslistar – Ein leið til þess að mæla nytsemi kerfa og vefja er að nota svokallaða matslista (tékklista). Þetta er fljótleg og því tiltölulega kostnaðarlítil aðferð og skilar í flestum tilfellum innsýn yfir það hvort viðmótið sé í grunnatriðum nytsamt eða ekki. Matslistar eru útbúnir samkvæmt ákvöðnum stöðlum sem almennt eru notaðir við nytsemisúttektir. Með þessum listum er leitast við að svara spurningum um nytsemi viðkomandi kerfis og geta þeir leitt í ljós hvort frekari prófana eða úttekta er þörf eða jafnvel gagngerrar endurskoðunar kerfisins.
Aðgengisúttekt
Kröfur um betra aðgengi á vefjum verða æ háværari. Þetta er kannski ekki undarlegt með tilliti til þess að milli 10-20% þýðis í flestum löndum á við einhvers konar fötlun að stríða. Reyndar fer það eftir því hvernig fötlun er skilgreind þ.e. hversu hátt hlutfallið er, allt frá vægri fötlun (til dæmis lesblinda) yfir í alvarlega fötlun (til dæmis blinda, lömun, heyrnarleysi og þess háttar). Fólk með alvarlega fötlun telur um 10-15% í hverju þýði. Sem dæmi má taka að þetta eru um 8,5 milljónir manna í Bretlandi en 2 milljónir af þeim eru sjónskertir eða blindir.
Fólk nær einnig hærri aldri að meðaltali heldur en nokkurn tímann áður og mun ná jafnvel hærri aldri næstu ár og áratugi. Þetta er fólkið sem er orðið vant Netinu í dag og kemur til með að þurfa einhvers konar breytingar á vefjum til að geta notað þá seinna. Eftir því sem við verðum eldri erum við líklegri til að eiga við fötlun að stríða og eru 25% fólks eftir 55 ára sem eiga við einhvers konar fötlun að stríða vegna öldrunar. Þetta hlutfall hækkar upp í 50% við 65 ára aldurinn (þessar tölur eiga við Bretland en mjög svo líklegt er að talan sé svipuð hér).
Í Bandaríkjunum eru 65 milljónir manna (19.7% af þýðinu) með einhvers konar fötlun og 37 milljónir voru með alvarlega fötlun (12.3% þýðis). Þetta gerir fatlaða að stærsta minnihlutahópi í Bandaríkjunum. Þar af eru 6.2 milljónir skólabarna sem þurfa aðgang að Netinu og munu taka virkan þátt í netsamfélaginu í framtíðinni. Þetta samfélag er ekki almennilega reiðubúið vegna lélegs aðgengis fyrir fatlaða að Netinu almennt.
- Ítarleg úttekt – tæknilega hliðin: Farið er yfir vefina með tillitit til: Html kóðans sem og tæknilegra atriða á vefnum eins og Macromedia Flash, Javascript og fleira.
- Ítarleg úttekt – mannlega hliðin: Einnig er vefurinn tekinn út með tiliti til ólíkra þarfa mismunandi notendahópa eins og blindra, lesblindra, sjónskertra, aldraðra, hreyfihamlaðra og heyrnarlausra svo dæmi sé tekið.
Gott er að hafa í huga að bætt aðgengi vefja er ekki einungis til bóta fyrir fatlaða heldur skilar það sér til allra notenda. Í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands sér SJÁ um að gera úttektir á vefjum með þarfir fatlaðra í huga. Farið er yfir vefi með tilliti til aðgengis fyrir blinda, heyrnarlausa, lesblinda, sjónskerta og fleiri og skilar SJÁ verkefnalista með tillögum til úrbóta. Úttekt SJÁ skilar sér í vottun sem vefirnir hljóta þegar úrbætur hafa verið gerðar. Vottað er fyrir Forgang 1, Forgang 2 og Forgang 3 en Forgangur 1 er lágsmarkskrafa sem gerð er varðandi aðgengi á vefjum (til dæmis að það sé ALT texti á öllum myndum).
Ofangreindar upplýsingar getur þú nálgast á Word sniði hér að neðan:
Bæklingur um þjónustu Sjá á Word sniði (stærð skjals: 59kb)