Leit snýst um að finna

Því miður er það allt of algengt að notendur eiga í miklum erfiðleikum með að finna það sem þeir leita að á vefjum fyrirtækja. Gerry McGovern fjallar um leit og leitarvélar í pistli sínum þessa vikuna. Hann hittir naglann á höfuðið eins og svo oft áður. Þar segir hann að til þess að leysa þetta vandamál þurfi að hugsa þetta út frá því að finna en ekki leitinni sjálfri. Út frá efni en ekki tækni. Mikilvægt er að efni sé skrifað með tungutaki notandans en ekki út frá innanhúss hugtökum. Tæknin getur aðeins gert svo mikið, hitt er í okkar höndum.


UX og notendaprófanir

Í nýjasta pistli NN Group er fjallað um notendaupplifun (e. User experince eða UX) og hversu mikilvægt sé að leita til raunverulegra notenda til að tryggja að notendaupplifun sé góð og í samræmi við væntingar.

Hann dregur jafnframt fram algengustu mistökin í þessu samhengi. Nefnd eru þrjú algeng mistök sem gerð eru þegar notendaupplifun er rannsökuð.

 

Að leita ekki til rétta fólksins. Mikilvægt er að leita í réttan markhóp og tala við raunverulega notendur á meðan á þróunarferlinu stendur. Þannig fást raunhæf gögn til að vinna með.

Að vera leiðandi. Óreyndari prófarar geta haft áhrif á niðurstöður með því að spyrja notendur leiðandi spurninga. Réttari niðurstöður fást þegar prófun er í höndum reyndra aðila sem hafa góðan skilning á atferlisrannsóknum.

Að nota ranga rannsóknaraðferð. Notendaprófanir geta verið margskonar og mikilvægt að velja þá aðferð sem hentar hverju sinni. Þannig fást skýrust svör við þeim spurningum sem leitast er við að svara á viðeigandi stigi í þróunarferlinu. Röng aðferð getur kallað á röng svör.