Netið er dásamlegur brunnur fróðleiks og skemmtunar. Þar er hægt að fræðast um allt mögulegt, hlaða niður tónlist og jafnvel kvikmyndum (löglega auðvitað), margir stunda atvinnu í gegnum Netið jafnvel frá fjarlægum heimsálfum, stunda bankaviðskipti og svo eru þeir ótaldir sem versla á Netinu. Netið er sem sagt dásamlegt EF þú hefur fullan aðgang að þeim upplýsingum og því efni sem þar er í boði. Það eru ekki allir svo heppnir en allt of algengt er að fatlaðir notendur rekist á hindranir þegar þeir skoða vefsíður. Þetta er þó að breytast og má geta þess að Íslandsbanki og Strætó hafa unnið mikið og gott verk hvað varðar aðgengismál fatlaðra á Netinu. Þessir vefir hafa nú hlotið vottun SJÁ ehf og Öryrkjabandalagsins varðandi gott aðgengi. Þessir vefir skara fram úr og eru öllum gott fordæmi. Það er þó mikilvægt að staðnæmast ekki hér heldur halda áfram þeirri vinnu sem hefur verið lögð í að gera þessi mál betri. Viðleitni og viðhorf fyrirtækja er nú mun jákvæðara og ríkir yfirleitt skilningur þegar kemur að aðgengi fatlaðra að upplýsingasamfélaginu. Þó er ekki alltaf svo.
Fatlaðir og Netið
Ekki eru allir sem átta sig á því að blindir geta (ef vefsíður hafa verið smíðaðar tiltölulega rétt) haft fullan aðgang að efni og upplýsingum alveg eins og hinir. Þeir nota til þess gerðan búnað (skjálesara) sem „les” allan texta sem fyrir er á skjánum. Skjálesari hjálpar ekki einungis þeim sem eru blindir heldur getur hann verið ákaflega mikilvægur fyrir þá sem eru lesblindir og aðra sem hafa skertan málskilning. Hann les auðvitað á íslensku! Það eru þó auðvitað ekki bara blindir sem þurfa sérstakan búnað og má nefna að lamaðir einstaklingar og þeir sem hafa verulega skerta hreyfigetu nota þar til gerðan pinna sem er annað hvort festur við höfuðið eða jafnvel munn. Sumir geta einungis stjórnað tölvunni sinni með því að „tala” við hana og þegar viðkomandi segir „Enter” þá virkjast samsvarandi hnappur á lyklaborði svo dæmi sé tekið
Minnihlutinn í víðari skilningi
Hafa skal í huga að það eru ekki einungis blindir sem lenda í vandræðum vegna óaðgengilegra vefsíðna heldur eru það einnig lamaðir, hreyfihamlaðir, heyrnalausir, flogaveikir, litblindir, lesblindir og svo mætti telja. Fatlaðir eiga til að gleymast og ekki síst varðandi Netið. Samkvæmt erlendum spám þá eru 30% líkur á því að einstaklingur á aldrinum 35-65 ára upplifi það að verða fyrir einhvers konar fötlun. Um 10% fólks alls staðar í heiminum hefur einhverja fötlun. Þetta gera um 500 milljónir manna um allan heim!!! Fatlaðir eru því í „minnihluta” í einum skilningi en ekki endilega öðrum. Einnig er vert að hafa í huga að aldraðir er sá hópur fólks sem stækkar hraðast í heiminum samkvæmt upplýsingum frá WHO. Eftir 25 ár mun 20% af hverri þjóð samanstanda af öldruðum. Á þessum aldri er ekki ósennilegt að fólk hafi misst eitthvað af heyrn, sjón og hafi skerta hreyfigetu. Hafa skal í huga að þessir framtíðarnotendur eru á besta aldri í dag og eru þeir notendur sem nota Netið hvað mest og munu gera miklar kröfur um aðgengi efni og upplýsinga í framtíðinni. Ekki má heldur horfa fram hjá því að með því að gera vefsíður aðgengilegar er verið að stuðla að því að stærri hópur notenda hafi aðgang að henni, auglýsingar ná til breiðari hópa og rúsínan í pylsuendanum er að líkurnar á því að þessi hópur versli á vefsvæði þínu aukast töluvert. Ágætt er að hafa í huga að ráðstöfunartekjur fatlaðra í Bretlandi eru um 40 milljarðar punda.
Lög og reglur
Þegar horft er til nágrannalandanna má sjá að kröfurnar varðandi aðgengi eru orðnar harðari en áður var. Nýlega var dæmt í máli bandarískra einstaklinga gagnvart tveimur fyrirtækjum og óaðgengilegra vefsíða þeirra. Fyrirtækin töpuðu málinu enda aðgengi fatlaðra að Netinu er orðið lögbundið þar í landi. Sams konar mál hafa komið upp í Ástralíu og víðar. Í Bretlandi voru lög varðandi aðgengi fatlaðra nýverið hert til muna og er tímaspursmál hvenær lögsóknir hefjast af fullum krafti. Lögsóknir og leiðindi þurfa þó ekki að koma til. Stundum getur reynst kostnaðarsamt að laga stór vefsvæði og er auðvitað mun ódýrara að hanna slíkar síður með aðgengi í huga frá upphafi en að gera það eftir á. Reiknað hefur verið út að 10% kostnaðar við uppbyggingu á nýjum vef er nægilegur til að gera vef aðgengilegan. Það er ekki mikil fórn fyrir góðan vef og engar lögsóknir.
Að lokum
Það eru fjölmörg atriði sem þarf að hafa í huga varðandi aðgengi fatlaðra og má þar helst nefna hindranir sem koma til vegna þess að ekki hefur verið nægilega vandað til verks. Má nefna atriði eins og: Notkun á töflum til að stýra útliti, óskýr ALT texti á myndum, notkun á forskriftum (e. Javascripts), of mikill texti, margmiðlunarefni, óskýr heiti tengla, blikkandi auglýsingar, ósniðin PDF skjöl og svo mætti lengi telja. Þetta eru hins vegar ekki stórvægileg mál þegar hugað er að þeim í upphafi.
Við hjá SJÁ ehf erum ánægð með samstarfið við Öryrkjabandalagið og erum stolt af því að stuðla að bættu aðgengi fatlaðra á Netinu. Bætist endilega í hópinn.
Sigrún Þorsteinsdóttir
Sérfræðingur SJÁ í aðgengi fatlaðra á Netinu.
Sigrún útskrifaðist frá The University of Westminster í London árið 2001 með MA gráðu í hönnun fyrir gagnvirka miðla. Sigrún er einnig með BA gráðu í Sálfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið námi í grafík frá Myndlista- og Handíðaskóla Íslands.
Sigrún hefur unnið margar aðgengisúttektir bæði hérlendis og erlendis (og verið ráðgjafi fyrir meðal annars Eurostar, Hilton, Woolworths, Bentley Legal & General, RAC). Á Íslandi hefur hún verið í nánu samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands varðandi aðgengismál á Netinu.