Sjá um að vefirnir séu skilvirkir og viðmótsþýðir

Starfsmenn Sjá ehf. eru Margrét Baldursdóttir, Jóhanna Símonardóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Alda Sigurðardóttir, Sigrún Þorsteinsdóttir, Helga Rakel Guðrúnardóttir, Sigrún Harðardóttir og Sirrý Hallgrímsdóttir. Á myndina vantar Guðjón Ásmundsson. Morgunblaðið/ÞorkelFyrirtækið Sjá ehf. er níu manna fyrirtæki í eigu þriggja kvenna. Ragnhildur Sverrisdóttir fregnaði að fyrir nokkrum árum unnu þær við vefsíðugerð, en áttuðu sig á að þær gátu ekki vitað með vissu hvort vefirnir nýttust eins og til var ætlast.

 
Þær Áslaug Friðriksdóttir, þróunarstjóri Sjá, Jóhanna Símonardóttir fjármálastjóri og Sirrý Hallgrímsdóttir framkvæmdastjóri ákváðu í ársbyrjun 2001 að stofna fyrirtæki sem sérhæfir sig í prófun á viðmóti, kerfisprófunum, aðgengisúttektum fyrir fatlaða, þarfagreiningu, útboðum og ráðgjöf.

 
Auk föstu starfsmannanna níu kallar fyrirtækið á ýmsa starfsmenn til liðs við sig í sérstök verkefni. Nýjasta stórverkefni Sjá er úttekt á 250 vefjum ríkis og sveitarfélaga. Sjá hefur einnig unnið ýmis verkefni fyrir erlend stórfyrirtæki.

 
Starfsmenn Sjá eru með fjölbreytta menntun og reynslu að baki. Þarna eru sálfræðingar, mannfræðingar, viðskiptafræðingar og stjórnmálafræðingar, auk tölvunarfræðinga. „Við nálgumst vinnuna alltaf út frá notendum vefja,“ segir Alda Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá Sjá. „Við seljum ekki hugbúnaðarlausnir, enda viljum við gæta þess að Sjá sé óháð fyrirtæki sem eigi engra slíkra hagsmuna að gæta. Okkar starf er að gera vefinn notendavænan.“

 
Áslaug Friðriksdóttir bætir við, að allra best sé þegar Sjá kemur að hönnun vefja strax í upphafi. „Vinnan við vefinn verður miklu skilvirkari. Stundum setja fyrirtæki upp vefi án þess að stjórnendur þeirra hafi fyllilega mótað hverju þeir eigi að skila. Er þetta upplýsingavefur fyrir þröngan hóp, eða verslunarvefur fyrir almenning? Við hjálpum fyrirtækjum að skerpa sýnina, svo hægt sé að hanna vefinn í samræmi við hana. Þegar því er lokið gerum við viðmótsprófanir, til að kanna hvort vefurinn nýtist í raun eins og til var ætlast.“

 
Sirrý Hallgrímsdóttir segir eðlilegt að fyrirtæki leiti til sérfræðinga til að tryggja að vefir nýtist vel. „Starfsmannastjórar fyrirtækja leita til sérfræðinga við ráðningar- og markaðsstjórar styðjast við markaðsrannsóknir. Yfirmenn tölvudeilda þurfa líka að styðjast við álit sérfræðinga sem standa utan fyrirtækisins. Það vill stundum brenna við að eingöngu sé leitað álits starfsmanna innanhúss á uppbyggingu vefjar, en þeir þekkja viðfangsefnið kannski of vel og geta ekki sett sig í spor almennra notenda utan fyrirtækisins.“

Vefir fyrirtækjum mikilvægir

Í húsnæði Sjá við Ingólfsstræti er sérstakt prófanaherbergi, þar sem fyrirtækið nýtur liðsinnis almennra notenda til að prófa vefi. „Vefir eru auðvitað ólíkir, þeir geta verið almennir vefir, innri vefir fyrirtækja eða sérhæfð kerfi fyrir sérfræðinga á einhverju sviði,“ segir Sirrý. „Við leggjum mikla vinnu í að velja notendur sem prófa vefi, svo útkoman verði marktæk. Við gerum einnig kerfisprófanir og leitum uppi villur sem gera notendum lífið leitt.“ Áslaug segir mjög mikilvægt að greina hvernig fólk skoðar vefi og Alda bætir við að margir vefir, sem hafi fengið viðurkenningu fyrir skýrleika og gott aðgengi, hafi farið í gegnum greiningu hjá Sjá. Hún bendir á að vefir séu nú mikilvægur þáttur í rekstri margra fyrirtækja. „Ef vefurinn er ekki skilvirkur, þá leita viðskiptavinirnir einfaldlega eitthvað annað.“

 

Sirrý segir að þau fyrirtæki, sem hafi áður nýtt sér þjónustu Sjá, leiti nú til fyrirtækisins þegar setja eigi upp nýjan vef eða breyta þeim gamla. „Stjórnendur þeirra eru búnir að átta sig á að mistök geta verið dýrkeypt og full ástæða til að vanda vel til verksins í upphafi.“ Áslaug tekur undir þetta og segir að það hafi lengi loðað við að ef óánægja var með vefi, hafi útliti þeirra verið breytt. „Stefnumótunin að baki gleymdist hins vegar gjarnan og því kom það fyrir að öllu ægði saman. Það var ekki hægt að átta sig á hvernig vefurinn átti að nýtast.“

Aðgengi fatlaðra nýtist öllum

Sjá hefur átt samstarf við Öryrkjabandalag Íslands og greint vefi út frá þörfum fatlaðra. Fatlaðir hafa oft ýmsar sérþarfir sem taka þarf tillit til, til dæmis nota þeir oft ýmis hjálpartæki við tölvunotkun. Blindir nota t.d. skjálesara og margir, sem búa við ýmiss konar fötlun, geta aðeins notað einn takka til að skoða vefi. Alda nefnir sem dæmi, að það geti skipt sköpum fyrir fatlaða að geta notað „tab“ takkann á tölvunni til að færa sig á milli svæða innan síðu eða milli síðna, í stað þess að nota bendil tölvumúsarinnar, sem getur reynst hreyfihömluðum erfitt. „Við gefum fyrirtækjum leiðbeiningar um hvernig hægt sé að gera vefina aðgengilegri fyrir fatlaða og vottum vefi í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands þegar kröfurnar hafa verið uppfylltar. Flestum þykir sjálfsagt að tryggja aðgengi fatlaðra að byggingum. Það er miklu auðveldara að tryggja aðgengi þeirra að vefjum, sem ætti að vera jafnsjálfsagt. Sums staðara erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum og Ástralíu, eru lög sem kveða á um rétt fatlaðra að upplýsingum á netinu. Þetta er ekki enn komið í lög hér, en það er skýr stefna stjórnvalda að auka aðgengi að upplýsingum. Sá hópur sem þegar notar netið mun eldast, en vilja nýta sér það áfram þótt sjónin daprist og hendur fari að skjálfa. Vefir verða aldrei verri þótt aðgengi fyrir fatlaða sé tryggt, bara betri.“
Íslandsbanki, Strætó bs. og Reykjanesbær hafa þegar fengið vottun af þessu tagi fyrir vefi sína og Kópavogsbær bætist í hópinn á næstu dögum.

250 opinberir vefir

Sjá er nú að vinna að úttekt á þjónustu 250 opinberra vefja hér á landi, þ.e. vefja ríkis og sveitarfélaga. „Okkar verkefni er að kanna á hvaða stigi rafræn þjónusta hins opinbera er,“segir Áslaug. „Við munum skoða aðgengi að þessum vefjum, nytsemi þeirra, hversu skilvirk rafræna þjónusta sem boðið er upp á er og hvernig vefjum er viðhaldið. Verkefnið er á vegum forsætisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og þegar okkar vinnu lýkur í haust hefur hið opinbera safnað nauðsynlegum gögnum til að byggja upp frekari stefnumótun og áætlanir.“

 
Alda segir algengt að Sjá gefi sér þrjár vikur í prófanir á vefjum. „Við erum einnig með þjónustusamninga við fyrirtæki og fylgjumst sífellt með vefjum þeirra.“

 
Fyrirtækið, sem stofnað var fyrir rúmum fjórum árum, er enn að vaxa og dafna. Alda, Áslaug og Sirrý segja lykilinn að velgengninni vera sterkt teymi ólíkra einstaklinga. Fyrir utan stórverkefnið á vegum forsætisráðuneytisins má nefna, að Sjá skrifaði nýlega undir samning við stórt fyrirtæki á Ítalíu, sem vill að gerð verði úttekt á fjölda vefja, sem meðal annars er ætlað að höfða til ferðamanna. Þetta er ekki fyrsta erlenda verkefnið sem Sjá vinnur að. Þess má geta að Sigrún Þorsteinsdóttir, sérfræðingur Sjá í aðgengismálum, hefur unnið fyrir fjölda erlenda fyrirtækja, s.s. London Stock Exchange, HSBC, Orange, Dell og Hilton-hótelin, svo dæmi séu nefnd. „Við kvörtum ekki undan verkefnaskorti. Styrkur okkar felst í öflugu teymi ólíkra en samhentra einstaklinga.“