Mig langar að dreypa á stöðu mála hér á landi varðandi aðgengi á Netinu. Við búum í samfélagi þar sem ekkert fyrirtæki er sett á laggirnar nema að opna vefsíðu samhliða þar sem hægt er að fá upplýsingar um þjónustuþætti, vörur, opnunartíma o.s.frv. Í 90% tilfella eru þessar vefsíður óaðgengilegar fötluðum notendum. Hins vegar má segja að í um 75% tilfella þyrfti ekki að gera miklar lagfæringar svo að vefsíðurnar yrðu aðgengilegar notendum með mismunandi þarfir. Upplýsingasamfélag er því einungis svo gott svo lengi sem það er aðgengilegt öllum notendum.
Nokkur dæmi um óaðgengilegt efni á vefsíðum:
- Blindur einstaklingur ætlar að sækja um atvinnu á netinu en getur ekki því umsóknin er á PDF formi.
- Lesblindur einstaklingur ætlar að lesa upplýsingar um námskeið sem hann er að sækja í menntastofnun en getur ekki því letrið er of þétt og bil milli lína er of lítið.
- Sjónskertur einstaklingur ætlar að lesa upplýsingar um bíl sem hann langar að kaupa en getur ekki þar sem letrið er of smátt og engin leið að stækka það því letrið er í fastri stærð.
- Hreyfihamlaður einstaklingur ætlar að panta borð á veitingahúsi en getur ekki því vefsíðan er unnin í Adobe Flash og erfitt að smella á ákveðna staði innan vefsíðunnar og ekki hægt að nota TAB lykilinn á lyklaborðinu.
- Heyrnarlaus einstaklingur ætlar að skoða auglýsingu um tölvu sem hann hefur áhuga á að kaupa en getur ekki því auglýsingin er ekki textuð og enginn texti er í boði.
- Og svo mætti lengi telja….
Ég hef haft tækifæri til að starfa við þessi mál fyrir fyritæki, bæði hérlendis og erlendis, allt frá Íslandi til Brasilíu og ég get fullyrt að staða mála er góð hér á landi þrátt fyrir að 90% af vefsíðunum séu í einhverju ólagi. Þetta virkar kannski þversögn en það sem ég á við er að viðhorf okkar hér á landi er töluvert annað en viðhorf erlendis til aðgengismála. Hér koma fyrirtæki af góðvilja til okkar og fá úttekt. Spurning eins og “hvernig getum við gert vefinn okkar aðgengilegri” er spurning sem ég heyri oft. Mun sjaldnar heyri ég sömu spurningu erlendis. Þar er það meira í ætt við „heyrðu það er einhver fatlaður notandi að hóta okkur lögsókn, hvað þurfum við að gera?”. Meginmunurinn liggur í því ólíka hugarfari sem felst í þessum orðum. „Hvað getum við gert” og „Hvað þurfum við að gera”. Við höfum rétta viðhorfið og það mun fleyta okkur áfram næstu árin.
Ég nefni hér í þessu samhengi skýrslu sem SJÁ í samvinnu við forsætisráðuneytið gerði á öllum opinberum vefjum síðasta vor. Þar kom aðgengishlutinn vægast sagt illa út. Allt of oft sjáum við gamla vefi sem eru í lamasessi, sem hafa ekki verið uppfærðir í mörg ár og enginn áhugi fyrir því að sinna þeim. Við sjáum einnig vefi, unna í Flash, með hreyfimyndum þar sem útlit virðist skipta mun meira máli en virknin. Meðalvegurinn hins vegar, eins og svo oft, er gullinn. Við sjáum vefi sem eru fallegir, vel hannaðir, þægilegir fyrir augað, notendavænir, skila öllu því sem vefurinn á að skila, vel aðlagaðir að leitarvélum og auðvitað aðgengilegir, til allra notenda. Ég nefni vefi eins og www.straeto.is og www.tryggingamidstodin.is.
Það eru hræringar í heimi aðgengis á Netinu. Hræringar sem ég fylgist náið með. Þar má helst nefna breytingar á alþjóðlegum gátlistum sem ég og margir kollegar mínir víðs vegar um heim viljum meina að sé stórgallaður að mörgu leyti. Fyrir því liggja margar tæknilegar ástæður sem ég ætla ekki að tína til hér. Gátlisti SJÁ er að öllu leyti svipaður gátlista W3C en með sérstökum viðbótum og útfærslum sem miðaðar eru við íslenska notendur. Við höfum sem sagt betrumbætt listann, við höfum tekið út úrelt atriði og við höfum bætt inn mikilvægum atriðum eins og til dæmis þeim sem snúa að lesblindum notendum og bendi ég á www.stillingar.is í því samhengi.
Ég flutti fyrirlestur á ráðstefnu fyrir nokkrum árum síðan sem haldin var á vegum Öryrkjabandalagsins. Ég tjáði ráðstefnugestum þá að ég ætlaði að hefja vinnu við að taka út vefsíður á Íslandi með tilliti til aðgengis og vottunar. Starfið var óþekkt þá og sá ég spurnarsvip í augum margra. Síðan þá hef ég með SJÁ, vottað 13 vefi. Sumir hafa farið í gegnum vottun 1 sem er lágmarkskrafa sem gerð er varðandi aðgengi (til dæmis vefur Geðhjálpar www.gedhjalp.is) og aðrir eins og vefur Tryggingamiðstöðvarinnar (www.tryggingamidstodin.is) hefur farið í gegnum vottun 3 þar sem gerðar eru strangar kröfur varðandi aðgengi. Þess fyrir utan hefur tugur fyritækja og stofnana einnig fengið ráðgjöf varðandi aðgengismál.
Í dag munum við hjá SJÁ í samstarfi við forsætisráðuneytið og Öryrkjabandalag Íslands halda ráðstefnu sem miðar að því að kynna stöðu mála hérlendis og hver næstu skref eru. Mig langar í framhaldi af henni kynna þá hugmynd að gera íslenska vefi þá aðgengilegustu í heimi. Ég vil gera upplýsingasamfélagið Ísland, aðgengilegt öllum notendum. Ef það tekst ekki þá tekst það ekki en ég vil allavega fara eins nálægt því og hægt er. Maður kemst víst ekkert áfram nema með því að spenna bogann hátt.
————-
SIGRÚN ÞORSTEINSDÓTTIR, MA, BA
Sérfræðingur í aðgengismálum fatlaðra á Netinu
Sigrún útskrifaðist frá The University of Westminster í London árið 2001 með MA gráðu í hönnun fyrir gagnvirka miðla. Sigrún er einnig með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og BA gráðu í Grafík frá Listaháskóla Íslands. Sigrún hefur verið í nánu samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands varðandi þróun aðgengismála á Netinu á Íslandi. Hún hefur unnið að fjölmörgum verkefnum hérlendis jafnt sem erlendis undanfarin ár og hefur haldið fyrirlestra og námskeið. Sigrún hefur ásamt vinnu á Íslandi búið og starfað í London undanfarin 5 ár hjá alþjóðlegu fyrirtæki sem sérhæfir sig í vefráðgjöf. Sigrún er meðlimur í GAWDS (Guild of Accessible Web Designers).