Future of Mobile ráðstefnan, London

Sigrún Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá SJÁ sótti á dögunum Future of Mobile ráðstefnuna í London sem haldin var á vegum carsonified.com. Ráðstefnan fjallaði um innihald vefja á farsímum, vandamál, kosti, strauma, stefnur og framtíð og var afar áhugaverð. Sérstaklega var hún áhugaverð út frá umræðum og spurningum sem þar fóru fram.

Til dæmis voru heitar umræður á milli WURFL manna og Opera manna varðandi staðla og lokuð umhverfi og hafði Vodafone sitthvað að segja um það mál. Sérlega áhugavert að mati Sigrúnar var hversu keimlíkar niðurstöður voru á ráðstefnu þessarri og ráðstefnu SKÝ sem haldin var um daginn. Skiptar skoðanir eru á því hvort eigi að sérsníða efni að vefjum farsíma eða halda vefjum eins og þeir eru í dag og bíða eftir því að farsímar ráði almennilega við alla tækni sem í boði er. Nýjasta undrið, iphone kom þarna sterkt í umræðuna. Fyrirlesarar voru almennt skemmtilegir og leiðandi á sínu sviði. Þarna voru aðilar frá Google (Android platformið), Vodafone, Opera, Adobe, WURFL o.fl. Fram kom einnig að áætlað mat á fjölda þeirra sem munu hafa aðgang að Netinu í farsímum er um 50% jarðarbúa fyrir árið 2010. Þarna skiptir mestu máli heimsálfur eins og Asía og Afríka en þar eru töluvert margir án tölvu en hafa farsíma og munu hafa aðgang að Netinu í gegnum hann. Infrastrúktúr er í lamasessi í þessum löndum (þ.e. landlínur, rafmagn o.fl.) en notkun á þráðlausu neti mun stóraukast.