Nielsen: Minni gróði út frá nytsemi

Jakob Nielsen er ekki mikið fyrir að gera lítið úr skilvirkni aðferða sinna og því kom nokkuð á óvart að nýjasta grein Nielsen fjalli um minni gróða af því að beita aðferðum úr heimi nytsemi (e. usability measures) við endurhönnun á vefjum. Þegar betur er að gáð hins vegar má lesa að Jakob mælir að sjálfsögðu með því að nytsemisaðferðir séu notaðar og að það að leggja lítinn hluta fjármagns í endurhönnun vefja, mun samt skila miklum hagnaði.

Í nýrri skýrslu Jakob Nielsen sem fjallar um þetta mál segir að algengt hlutfall þegar um er að ræða ávinning eftir endurhönnun sé nú 83%. Þessi tala er töluvert lægri en fyrir 6 árum (135% eftir endurhönnun) en gróðinn er þó enn þá mikill  þar sem nytsemi er tiltölulega ódýr fjárfesting miðað við það sem á móti fæst. Eftir hönnunarbreytingar á vefjum þar sem áhersla hefur verið lögð á nytsemi (e. usability) má yfirleitt mæla arðsemi fjárfestinga á vefjum (e. ROI/Return on Investment). Þannig er hægt að mæla í tölum hversu arðbær vefurinn er fyrir og eftir breytingar. Slíkar mælingar eru mjög mikilvægar, sérstaklega á vefjum sem selja vörur og þjónustu.  Þá er til dæmis verið að mæla hvernig vörur eru að seljast, hvort að notendur smella á mikilvægt efni eða auglýsingar, hvernig tölfræði yfir heimsóknir líta út og hvernig notendum gengur að framkvæma lykilverkefni á vefjum.

En hvers vegna er ávinningurinn út frá nytsemi minni en áður? Nielsen segir að hagnaður vegna nytsemi sé minni af aðallega tveimur ástæðum:

  • Verstu vefsíðurnar hafa nú flestar fengið bót meina sinna og vefsíður eru almennt ekki eins slakar eða illa hannaðar og þær voru á árum áður.
  • Ráðstöfunarfé til nytsemisprófana á vefjum almennt hefur ekki aukist gríðarlega og er almennt talað um að í mesta lagi fari 10% af fjármagni fyrirtækja til vefmála í nytsemisprófanir.

Góðu fréttirnar eru þær að aðeins þarf að setja 10% fjármagns í vefinn til að hann skili 83% hagnaði sem hlýtur að teljast gott þó 135% sé auðvitað betri tala. Hins vegar þegar horft er til framtíðar má segja að á síðustu árum hafi arðbærni vefja snúist fyrst og fremst um að selja vöru og þjónustu. Nielsen veltir þeirri spurningu fyrir sér hvort að næsti áratugur muni snúast meira um tryggð viðkiptavina, að halda þeim á vefjunum og snúa viðveru þeirra svo í hagnað. Nielsen segir að lokum að slíkt sé áhugavert en muni þó krefjast frekari rannsókna.