Í nýjustu rannsókn sinni fjallar Jakob Nielsen um þá staðreynd að eftir því sem Netnotendur verði eldri, minnki nokkuð geta þeirra til að framkvæma verkefni á Netinu. Þetta skiptir máli í hönnun vefja, sérstaklega þegar um söluvefi er að ræða. Þekktir eru þeir vefir sem selja til dæmis ferðir fyrir eldri borgara en bjóða upp á allt of lítið letur eða leiðarkerfi sem er erfitt fyrir þá sem eru farnir að missa hreyfigetu o.fl.
Nielsen skiptir notendum niður eftir aldurshópum og hver hópur hefur sín sérkenni sem hönnuðir horfa stundum til þegar verið er að draga að mismunandi aldurshópa inn á vefi (sem dæmi má nefna samskiptavefi eins og Myspace á móti fjárfestavefjum). Nielsen spyr, hvað með notendurna þarna í miðjunni? Þessa svokölluðu „mainstream” (almennir notendur)? Þessi notendahópur er að mati Nielsen sá hópur sem er hvað mikilvægastur á Netinu. Hann gefur upp nokkrar ástæður:
- Flestir tilheyra þessum aldurshópi. Í Bandaríkjunum eru 49% þýðis á milli 25-60 ára (35% eru yngri en 16% eru eldri).
- Þessir notendur eru í öllum bestu störfunum og hafa mest á milli handanna. Þetta eru þeir sem eyða mestu peningunum á Netinu.
- Næstum því allar viðskiptasíður („B2B”) herja á þennan aldurshóp.
Það sem vakti sérstaka athygli Nielsen er sú staðreynd að á milli 25-60 ára eykst sá tími sem notendur þurfa til að klára verkefni á Netinu um 0,8% á ári. Með öðrum orðum þarf 40 ára notandi 8% lengri tíma en 30 ára gamall notandi til að klára sama verkefni. 50 ára gamall notandi þarf 8% meiri tíma en sá 40 ára. Nielsen tekur fram að niðurstöður þessar séu tölfræðilega marktækar. Hins vegar tekur hann einnig fram að notendur eru ólíkir og til eru 50 ára gamlir notendur sem eru töluvert fljótari en 30 ára gamlir.
En hvers vegna þurfa notendur lengri tíma með aldrinum?
Aðallega eru tvær ástæður fyrir því; notendur eyða um 0,5% meiri tíma á hverri síðu og heimsækja einnig 0,3% fleiri síður í hverju verkefni.
Stærsti þátturinn er að eldri notendur (samvæmt Nielsen) þurfa lengri tíma til að skilja síður, skima texta og greina upplýsingarnar. Annað vandamál er að eldra fólk á í meiri vandræðum með að vafra um vefi. Nielsen tiltekur að hrörnunarferli mannsins byrji upp úr 25 ára og að við séum þá þegar farin að tapa sjón, hreyfigetu og hugrænir ferlar verði hægari og minni verði lélegra. Allir þessir þættir hafa áhrif á flýti þegar vafrað er um heima Netsins.
Það er gott að hafa í huga að eldri notendur í dag eru þeir sem byrjuðu að vafra um Netið um 40 ára. Eldri notendur eftir 20 ár eru þeir sem byrjuðu að nota tölvur og Netið mun fyrr á ævinni.
Nielsen tiltekur að nauðsynlegt sé að hafa í huga gullnar reglur hönnunar og nytsemi varðandi einfaldleika, gott og einfalt leiðarkerfi, skýrt letur o.s.frv. Aldrei er góð vísa of oft kveðin.