Víst er að margir eru spenntir yfir því að prófa nýjustu útgáfu Mozilla Firefox vafrans. Reyndar eru þeir nokkrir sem ekki gátu beðið og hafa fengið nasaþefinn af nýjustu útgáfunni með því að vera með Beta (tilrauna) útgáfu í notkun. Látið hefur verið vel af útgáfu 3 og lofa Mozilla Firefox menn meðal annars bættu öryggi, meiri hraða og allt að 15 þúsund lagfæringum og breytingum.Firefox styður nú einnig 50 tungumál.
Ein stærsta breytingin í hönnuninni er sú að til baka hnappurinn (Back button) er stærri en áfram hnappurinn en það er í samræmi við hegðun notenda að fara til baka fremur en að fara áfram í vafranum. Bætt öryggi notenda liggur meðal annars í því að þekktir dreifiaðilar ruslpósts eru á svörtum lista og er strax lokað á innkomu þeirra í vafranum. Einnig er erfiðara fyrir svindlfyrirtæki að nálgast lykilorð og notendanafn hjá notendum.
Fleiri gagnlegar viðbætur eru í boði m.a. nokkrar með tilliti til bókamerkja (bookmarks), auðveldara verður að merkja síður með bókamerki en áður var (með svipaðri virkni og stjörnuhnappinum í Internet Explorer 7.0 vafranum). Einnig verður hægt að endurræsa niðurhal frá þeim stað sem notendur þurftu að hætta ef tenging rofnar. Fyrir þá sem eru með tölvupóstforrit í vafra (t.d. Yahoo Mail) verður boðið upp á það að stilla vafrann þannig að hann opni nýtt bréf í sama vafraglugga en reyni ekki að opna í sér glugga eins og t.d. í Outlook forritinu. Beðið er eftir því að Google bæti þessum möguleika við hjá sér svo notendur geti nýtt sér stillinguna fyrir Gmail í Mozilla Firefox. Fleiri spennandi nýjungar eru í boði og verður gaman að sjá hvernig notendur taka vafranum.