Í nýlegu fréttabréfi sínu benda Webcredibles menn á mikilvægi þess að endurgjöf til notenda við að fylla út form og umsóknir sé dregin fram. Á þessu atriði hefur SJÁ oftar en ekki hamrað í skýrslum sínum enda er nánast óþolandi þegar notandi veit ekki hvar hann er t.d. staddur í umsóknarferli. Er hann staddur í skrefi 1 af 15 eða skrefi 1 af 2?
Þegar engin leið er fyrir notendur að vita hversu langan tíma umsóknin mun taka, geta þeir í versta falli gefist upp og sleppt því að heimsækja vefinn aftur nema af ítrustu nauðsyn og þá bölvandi og ragnandi. Webcredibles gefa nokkur góð ráð til að verjast því að notendur verði pirraðir á umsóknarferlum. Ef um er að ræða umsókn um t.d. þjónustu getur fyrirtæki/stofnun verið að missa af tekjum ef ekki er rétt hugað að málum svo vert er að hafa þessi atriði í huga:
- Gefið upp nafn hvers skrefs í stöðluslá (stöðuslá er mælikvarði á hversu langt notendur eru komnir í ferlinu t.d. „Skref 1 af 2“). Látið notendur vita hvar þeir eru staddir með skrefafjölda og enn betra, tilgreinið heiti viðkomandi skrefs og næsta skref t.d. „Skref 1 af 2: Persónupplýsingar“. Þetta má gera í fyrirsögnum (Headings). Þannig fá þeir upplýsingar um hvers er krafist af þeim í hverju skrefi.
- Dragið greinilega fram í hvaða skrefi, notendur eru staddir. Þetta má t.d. gera með litum, stærra letri, línum o.fl.
- Gerið stöðuslána skemmtilega. Webcredibles benda á að hægt sé að gera stöðuslána skemmtilega og væri t.d. hægt að nota mælistiku með mynd af bíl sem fer ákveðna vegalengd fyrir umsókn um bílatryggingar. Einnig væri hægt að nota peningabauk sem fyllist smám saman við umsókn um bankareikning.
Ekki einasta er stöðuslá mikilvæg fyrir endurgjöf notenda heldur er hún skilyrði til þess að t.d. blindir notendur viti hvar þeir eru staddir. Of oft eru stöðuslár einungis myndrænar (t.d. endurgjöf með litum) og jafnvel án ALT texta og missa blindir notendur þá af þessum mikilvægu upplýsingum. Fyrir blinda einstaklinga (sem og hreyfihamlaða og fleiri) er mjög mikilvægt að vita hvort umsóknarferli er 1 eða 15 blaðsíður en fatlaðir notendur þurfa oft lengri tíma en ófatlaðir til að klára umsóknir. Oft eru löng form þeim notendum erfið.
Afar mikilvægt er að stöðuslár hafi fyrirsögn (heading) eða aðrar upplýsingar í texta sem skila blindum jafnt sem sjáandi þessari mikilvægu endurgjöf.