Vefur Reykjavíkurborgar aðgengilegur fötluðum

Vefur Reykjavíkurborgar hefur nú fengið aðgengisvottun, en vottunin er veitt af Öryrkjabandalaginu og ráðgjafafyrirtækinu Sjá ehf. Í þessu felst að vefurinn er aðgengilegur öllum notendum óháð fötlun eða getu. Jón Gnarr, borgarstjóri, tók á móti fulltrúum Öryrkjabandalags Íslands sem afhentu honum skjal til staðfestingar á vottuninni.

Vottunin felur einnig í sér skuldbindingu Reykjavíkurborgar til að fylgja þeim kröfum sem settar eru fram varðandi aðgengi á vefnum. Miðað er við gátlista Sjá ehf. sem fylgir í meginatriðum gátlista W3C (World Wide Web Committee), frá Website Accessibility Initiative (WAI) sem gefinn var út 1999.


Í þessu felst að hópar fatlaðra sem af mismunandi ástæðum geta ekki eða geta illa nýtt sér hefðbundna framsetningu efnis á vef geta nú notað vef Reykjavíkurborgar. Hér er til að mynda átt við blinda, sjónskerta, hreyfihamlaða og fleiri hópa. Dæmi um atriði sem falla undir vottun um aðgengi:

 • ALT texti þarf að vera á öllum myndum, myndatenglum og myndahnöppum
 • Bjóða þarf upp á að minnsta kosti 2 stillingar á leturstærðum og 1 litastillingu (ljóst letur á dökkum bakgrunni)
 • Leiðbeiningar þurfa að fylgja allri virkni eins og útfyllingu eyðublaða og þess háttar.
 • Tenglaheiti þurfa að vera skýr.  Tilgreina þarf nákvæmlega hvert tengillinn leiðir notendur.
 • Reitir í formum þurfa að vera rétt skilgreindir fyrir skjálesara, nota þarf „LABEL for“ skipun.
 • Útskýra þarf skammstafanir eða merkja þær sérstaklega
 • Nota þarf stílsíður (CSS, e. Cascading Style Sheets) í uppbyggingu vefjarins.
 • Ekki nota töflur eða myndir til að sníða útlit.
 • Veita þarf notendum upplýsingar um stærð og snið skjala (til dæmis. PDF 20Kb).

Í dag var einnig opnuð auðlesin útgáfa af vef Reykjavíkurborgar á slóðinni www.reykjavik.is/audlesid. Þar er að finna upplýsingar um helstu þjónustu Reykjavíkurborgar, settar fram með auðlesnum texta, fyrir þá hópa sem eiga erfitt með að nýta sér hefðbundna framsetningu efnis t.d. vegna leserfiðleika eða þroskahamlana af ýmsu tagi.

 • http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-4550/
 • Bæði þessi verkefni voru styrkt af ESB í gegnum verkefnið EGOV4U sem Reykjavíkurborg er þátttakandi í.

Frá vinstri: Hjördís Anna Haraldsdóttir, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands og Jóhanna Símonardóttir frá SJÁ, sem er samstarfsaðili ÖBÍ um vottun vefsins, afhenda Jóni Gnarr borgarstjóra og Hreini Hreinssyni, vefstjóra Reykjavíkurborgar, viðurkenningu um aðgengisvottunina.