Niðurstöður könnunarinnar – Hvað er spunnið í opinbera vefi 2017

Úttektin var framkvæmd nú í sjöunda sinn, eða annað hvert ár frá árinu 2005. Tilgangur úttektarinnar er að meta opinbera vefi og bera saman, bæði með tilliti til þróunar en einnig milli stofnana.  Úttektin er mikilvægur stuðningur við þróun rafrænnar þjónustu.

Framkvæmdin var með svipuðu sniði nú og fyrri ár. Vefirnir voru skoðaðir og í framhaldinu fengu tengiliðir stofnana aðgang að sínu svæði á vef þar sem matið var birt og þeir gátu gert athugasemdir. Tengiliðir svöruðu einnig spurningum um vefinn og sína stofnun.

Matið sjálft fór fram um mánaðarmótin ágúst – september og í framhaldinu var könnunin opin fyrir svörun í um 3 vikur.

Svarhlutfall var aðeins betra nú en síðast eða um 80% á heildina.  Sveitarfélögin eru með lægsta svarhlutfallið eins og reyndar hefur verið í fyrri úttektum.

Það er ánægjulegt að sjá að þróunin er jákvæð, ágætis stökk upp frá fyrri úttekt.

Svarhlutfall eftir tegund stofnana

  • 80% á heildina
  • 86% ríkisstofnana
  • 63,4% sveitarfélaga
  • 87,5% ohf
  • 93% annað

 

Heildarmat eftir árum – 2005-2017

Þessi mynd sýnir heildarmat eða einkunn frá því að úttektin var fyrst framkvæmd árið 2005. Hér eru allir þættir matsins dregnir saman í eina einkunn. Það er að segja innihald – nytsemi – aðgengi og þjónusta.

Hér þarf þó að hafa í huga að þar sem að innihald og nytsemi var nú sjálfsmat stofnunar þá eru þær stofnanir sem ekki svöruðu ekki með inn í þessum tölum.

Við sjáum að þróunin er jákvæð, ágætis stökk upp. Hækkun um 6,5 stig. Heildarmat nú eru 78,3 stig af 100 mögulegum.

 

Niðurstöður gátlista og þjónustu eftir árum

Hér sjáum við svo niðurstöðu úr gátlistum og samanburð á milli ára. Ánægjulegt er að sjá að það er hækkun á öllum kvörðum.

Innihaldið hækkar í 83 stig og nytsemin hækkar mest eða í 90 stig. Það er einnig ánægjulegt að sjá að aðgengið hækkar nokkuð núna eða úr 61 stigi í 63,5 stig og þjónustan úr 65,5 stigum í 69 stig.

Eins og við höfum nefnt þá voru breytingar á aðgengisgátlistanum og í raun var harðar tekið á ýmsu þannig að það er enn ánægjulegra að sjá þessa hækkun.  Varðandi innihaldið og nytsemina þá var um sjálfsmat stofnunar að ræða núna eins og nefnt var hér áðan.

 

Heildarstig eftir tegund stofnunar

Flokkun stofnananna hefur tekið einhverjum breytingum á milli ára. Eina breytingin nú er að ráðuneytin eru nú tekin með öðrum ríkisstofnunum.
Flokkarnir eru fjórir – Ríkisstofnun, Sveitarfélag, Opinbert hlutafélag og Annað. Sem eru þá vefir sem ekki falla alveg inn í aðra flokka. Skólar og heilbrigðisstofnanir eru dregnar sérstaklega fram hér sem annars heyra undir ríkisstofnanir, en skólar eru framhalds- og háskólar.

Hér sjáum við líka ánægjulega þróun en meðaltal allra flokka hækkar frá síðustu úttekt.

Sveitarfélögin taka gott stökk upp eða 13 stig og eru nú með 77 stig. Ríkisstofnanir eru með tæp 79 stig, heilbrigðisstofnanir hækka einnig töluvert og eru nú með 80 stig og skólar með 79 stig. Opinber hlutafélög eru með 79 stig og vefir sem flokkast undir annað með 76 stig.

Þetta er því nokkuð jafnt eða frá 76-80 stig.

 

Rafræn þátttaka – rafrænt lýðræði

Mat á rafrænu lýðræði var með sama sniði og 2015. Metið var hvort í boði sé virkni sem styður við rafrænt lýðræði, en átt er við virkni sem felur í sér að notendum er boðið að tjá sig um málefni stofnunarinnar.

Til að fá stig var nauðsynlegt að fram kæmi í texta að sérstaklega væri óskað eftir tillögum frá notendum varðandi ákveðin mál eða ákvarðanir. En einnig var tekið tillit til þess ef óskað var eftir ábendingum varðandi starfsemi eða þjónustu stofnunar. Þannig að lýðræðishugtakið er nokkuð vítt skilgreint hér og miðar að því að allar stofnanir geti fallið inn í sama ramma, óháð eðli starfseminnar.

 

Eins og fyrr var lagt í hendur stofnana að gera athugasemd og greina frá því ef þessi þáttur þótti ekki eiga við um viðkomandi stofnun. Þessar athugasemdir verða nýttar til áframhaldandi þróunar á mati á lýðræðisþættinum.

Nokkrar breytingar eru hér á milli ára. Sveitarfélögin hafa bætt sig en 48% þeirra bjóða upp á einhverja slíka virkni. Stofnanir lækka lítillega en aðeins 16% stofnana sýna slíka virkni á sínum vefjum. Opinber hlutafélög hækka nokkuð en 37,5% þeirra sýna slíka virkni.

Hér er hægt að gera mun betur án þess að það sé mjög flókið. Góðar leiðbeiningar má finna í vefhandbókinni á vef stjórnarráðsins.

Samantekt

Nú svo við tökum þetta aðeins saman. Þá er þróunin jákvæð á heildina litið, töluverð hækkun sem er auðvitað frábært. Mun betra en síðast.

Allir ættu að geta staðist kröfur bæði hvað varðar innihald og eins nytsemi. Meiri meðvitund er nú um mikilvægi þess að vefir virki á ólíkum tækjum og skjástærðum sem er frábært en má bæta í.
Stóru áskoranirnar eru áfram aukin rafræn þjónusta og svo aðgengismálin. Enn getum við gert mun betur í þjónustunni – sérstaklega ættu sveitarfélögin að geta komið sterk inn hér. Það er gott að aðgengið hækkar og þróunin þar nokkuð stöðug en það er engu að síður nokkuð í land enn. Sérstaklega gott í ljósi þess að breytingar voru á matinu nú og það í raun strangara en hefur verið. En við stefnum auðvitað að því að allir opinberir vefir séu fyllilega aðgengilegir.

Kröfur notenda um þátttöku og að fá að hafa áhrif eiga bara eftir að aukast og nauðsynlegt að gera betur til að koma til móts við þær.

Hver og ein stofnun ætti nú í kjölfarið að skoða sínar niðurstöður út frá eigin markmiðum og forsendum. Þessi úttekt er hjálpartæki vefstjóra og veitir vonandi stuðning.

En sem sagt – við höldum áfram á sömu braut!

Nánari upplýsingar um könnunina, framkvæmd og niðurstöður má nálgast á vef stjórnarráðsins.

Stjornarradid.is og reykjavik.is bestu vefirnir

Í lok UT-dagsins voru afhentar viðurkenningar fyrir besta ríkisvefinn og besta sveitarfélagsvefinn. Fimm vefir voru tilnefndir í hvorum flokki.

Flest stig í flokki ríkisvefja (stofnanir, ohf, annað):
Neytendastofa (99)
Þjóðskrá Íslands (99)
Ríkisskattstjóri (98)
Stjórnarráðið (98)
Háskóli Íslands (98)

Flest stig í flokki sveitarfélagavefja:
Fljótsdalshérað (98)
Fljótsdalshérað (98)
Reykjavíkurborg (98)
Kópavogsbær (98)
Akureyri (96)
Reykjanesbær (96)

Í flokki ríkisvefja hlaut vefur Stjórnarráðs Íslands viðurkenninguna að þessu sinni.

Í flokki sveitarfélagavefja var vefur Reykjavíkurborgar hlutskarpastur.