Það er staðreynd að fæst okkar lesum texta á vefsíðum stafa á milli nema við höfum eitthvað tiltekið markmið (t.d. lesa ritgerð í tölvu bókasafns). í staðinn skimum við yfir síðurnar á augnabliki í leit að þeim upplýsingum sem við þurfum eða máli skipta. Ef eitthvað grípur áhuga okkar er hugsanlegt að við stöldrum við en annars er líklegt að við höldum áfram án þess að virða textann viðlits. Út frá þessu er gríðarlega mikilvægt að það efni sem mestu máli skiptir, grípi athygli okkar.
Þess vegna er gott að hafa þessar þrjár gullnu reglur í huga:
Fyrirsagnir og undirfyrirsagnir
Fyrirsagnir ættu að vera lýsandi fyrir efnið sem þær standa fyrir. Notendur ættu aðeins að þurfa að skima yfir fyrirsagnirnar til að átta sig á innihalda textans. Gætið þess að fyrirsagnir hafi nægilega stórt letur, að letrið sé skýrt og að nægileg pláss sé fyrir ofan og neðan fyrirsagnir. Einnig er gott að nota einhvern lit til að draga fyrirsagnirnar betur fram.
Meginmálið
Málsgreinar ættu ekki að vera langar og meginþráðurinn ætti ekki að innihalda meira en 1-2 hugmyndir. Það er góð hugmynd að feitletra tvö eða þrjú orð í textanum til að draga fram mikilvægustu atriðin. Augu notenda beinast að þessum orðum og meginþráður textans ætti strax að vera skýr fyrir notendum. Notendur eru fljótir að átta sig á því um hvað málsgreinin fjallar og hvort hún er áhugaverð í þeirra augum.
Tenglar
Stærsti hluti þess tíma sem við notum á vefsíðum fer í að fara frá einum stað á annan. Það er að segja, þegar við leitum t.d. í Google þá er það ekki Google leitarsíðan sem við viljum staldra við á heldur erum við aðeins að nota vefsíðuna sem stökkpall eitthvert annað. Sama gildir um tengla á síðum. Til að tenglar fangi athygli notenda þarf að gæta þess að skerpan sé nægileg á milli bakgrunns og leturs og að þeir séu undirstrikaðir, að tenglaheiti séu skýr (enga hér, meira, lesa meira, nánar tengla). Einnig er mikilvægt að þeir séu alls staðar í samræmi (alltaf bláir, undirstrikaðir o.s.frv.), þannig læra notendur strax hvað er tengill og hvað ekki.
Það sem er svo skemmtilegt við ofangreindar reglur er að ekki aðeins hjálpa þær til við að gera vefinn notendavænni heldur eru þær einnig gagnlegar fyrir skjálesara sem blindir einstaklingar nota. Rúsínan í pylsuendanum er svo að þessar þrjár gullnu reglur hjálpa leitarvélum við að finna það sem máli skiptir á vefnum þínum.