Ýmsar hræringar eru í vafraheiminum eins og þeir sem hafa fylgst með vef- og tæknimálum hafa eflaust tekið eftir.
Google hefur kynnt til sögunnar Chrome, nýjan vafra sem sérhannaður er til að styðja við gagnvirkni og lifandi miðla eins og myndskeið. Firefox menn sem nýverið settu fram útgáfu 3 af sínum vafra, hampa samkeppninni og telja hana af hinu góða. Í herbúðum Microsoft voru stjórnendur ekki eins ánægðir og telja að Internet Explorer skáki öllum vöfrum við og sé sannarlega bestur…dæmi hver fyrir sig. Chrome þykir vera léttur og hraður og sumir segja að hann safni saman öllum bestu þáttunum úr Internet Explorer, Mozilla, Safari og Opera og setji í einn vafra. Bókmerkingum (bookmark) er þó enn ábótavant, stafsetningartól er ekki í boði, aðgengismál eru ekki komin í lag o.fl. en enn er um tilraunaútgáfu (Betu) að ræða. Það verður spennandi að fylgjast með vafrastríðinu og víst er að aukin samkeppni þýðir líklega betri vef-upplifun fyrir notendur.