Upplýsingasamfélagið – Eitt samfélag fyrir alla

Aðgengi fatlaðra.

Hugtakið upplýsingasamfélag felur í sér breytta samfélagsmynd. Upplýsingasamfélag einkennist af hröðum breytingum í upplýsinga – og fjarskiptatækni. Í upplýsingasamfélagi gefast óteljandi tækifæri til að bæta lífskjör fólks og því eiga kjörorð Evrópuársins: Upplýsingasamfélagið – Eitt samfélag fyrir alla, einstaklega vel við í þessu sambandi.

Aðgengi að Netinu er sá þáttur sem segir til um hvort ákveðin þjóð búi í upplýsingasamfélagi. Af neðangreindum tölum er ljóst að upplýsingasamfélagið Ísland er veruleiki:

Eftirfarandi tölur gefa hins vegar í skyn að upplýsingasamfélagið sé ekki jafn aðgengilegt öllum:

  • 90% vefsíðna eru ekki aðgengilegar fötluðum.
  • 10% þjóðarinnar eru fatlaðir.

Þegar aðgengi fatlaðra að Netinu er sérstaklega skoðað er ekki hægt að segja að upplýsingasamfélagið sé veruleiki. Niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var í Bretlandi á síðasta ári sýna að 90% vefja eða heimasíðna eru hreint ekki aðgengilegar fötluðum. Þessi rannsókn tók til 1000 vefja fyrirtækja bæði opinberra stofnanna og einkafyrirtækja. Eflaust er sömu sögu að segja af vefsíðum íslenskra fyrirtækja og stofnanna (fyrirlestur Sigrúnar Þorsteinsdóttur – Aðgengismál í Bretlandi – sem haldinn var á ráðstefnu ÖBÍ þann 12. febrúar sl. – http://www.obi.is/Radstefna).

Nú er því einstaklega brýnt að beina augunum sérstaklega að fötluðum en með óheftu aðgengi að upplýsingum og notkun tækninýjunga er hægt að umbylta lífskjörum þessa hóps. Að undanförnu hefur nokkur umræða verið um þessi mál t.d. hélt Öryrkjabandalag Íslands ráðstefnu með forskriftinni Upplýsingasamfélagið í febrúar sl. Þá ráðstefnu sóttu aðilar úr ýmsum geirum og gott var að sjá að þar voru fulltrúar fyrirtækja bæði í opinbera og einkageiranum sem og fyrirtækja í vefframleiðslu áberandi.

Greinilegt er að þegar að aðgengi fatlaðra kemur er eins og fólk átti sig ekki á því um hversu stóran hóp fólks er verið að tala um. Þetta er eflaust einnig ástæðan fyrir því að ekki hefur verið gert meira í því að reyna að skilja þarfir þessa hóps. Þegar rætt er um að gera serstakar ráðstafnir vegna aðgengis fatlaðra telja flestir að eingungis sé verið að tala um blinda og finnst jafnvel óþarfi að fara út í „kostnaðarsamar” breytingar á uppsetningu vefjarins til að bæta aðgengi fyrir örfáar manneskjur. Þetta er hins vegar mikill misskilningur. Þeir notendahópar sem um er að ræða eru t.d. blindir, sjónskertir, lesblindir, heyrnarlausir og hreyfihamlaðir. Stór hluti þeirra sem einnig þarf að taka sérstaklega tillit til eru aldraðir sem margir hverjir eiga við einhverja fötlun að stríða. Þrátt fyrir að aldraðir séu ekki hlutfallslega margir á Netinu í dag er nauðsynlegt að horfa til framtíðar, en eins og tölurnar hér að ofan greina frá er líklegt að öldruðum netnotendum muni fjölga gríðarlega næstu árin.

Meirihluti fyrirtækja og stofnana nýtir sér Netið til að kynna þjónustu sína og í vaxandi mæli eru sömu aðilar farnir að stunda viðskipti í gegnum Netið. Fjöldi fólks stundar t.d. öll bankaviðskipti á Netinu og gerir sér aðeins einstaka sinnum ferð í banka til að sinna þeim erindum. Viðskipti á Netinu er eitthvað sem flestir horfa á sem þátt í að auka þægindi almennings og ekki síst fatlaðra sem oft á tíðum eiga í miklu basli við að nálgast sömu þjónustu dags daglega. Það er því til mikils að vinna.

En hvernig er hægt að bæta aðgengið?

Það besta við aðgengismálin er að tiltölulega auðvelt að snúa við. Með því að fylgja ákveðnum reglum við smíði vefja og heimasíðna er hægt að gjörbreyta landslaginu í þágu fatlaðra. Til þess að geta skoðað vefi eins og aðrir þurfa margir að nota sérstakan búnað. Í því samhengi má nefna Jaws talgervil, Supernova Magnification skjástækkara og Dolphin talgervil en þessi búnaður er helst notaður hér á landi. Að auki nota sumir sérstaka textavafra (t.d. Lynx). Til viðbótar er mikilvægt að hafa ýmis atriði sem varða það hvernig texti, myndir og uppsetning vefsíðna er háttað til að efni síðunnar komist alveg örugglega til skila.

Til eru ákveðnar vinnureglur og leiðbeiningar fyrir þá sem vilja tryggja aðgengi fatlaðra að vefjum sínum. Samtökin World Wide Web Consortium standa fyrir umfjöllun um þessi mál og gefa út leiðbeiningarnar fyrir þá sem vilja auka aðgengi vefja sinna. Þessar leiðbeiningar má finna á vef samtakanna www.w3.org og eru allir þeir sem sinna þessum málum hvattir til að skoða þann vef. Flestir munu eflaust sjá að með því að kynna sér aðferðir til að bæta aðgengi má stórbæta aðkomu fyrir fatlaða og það þarf alls ekki að hafa mikinn kostnað í för með sér.

Aðgengisúttektir

Fyrirtækið Sjá efh. hefur síðastliðin 3 ár framkvæmt prófanir á vefjum fyrir fyrirtæki og stofnanir. Reynsla okkar er sú að uppbyggingu vefsíðna er oft á tíðum mjög ábótavant. Jafnvel þó fólk eigi ekki við fötlun að stríða á það oft á tíðum erfitt með að greina og skilja hvar ákveðnar upplýsingar liggja á vefjum. Með því að horfa til aðgengis fyrir fatlaða má stórbæta aðgengi fyrir alla aðra þar sem aðferðirnar taka til atriða sem hafa að gera með aðgengi fyrir alla.

Sjá ehf. og Öryrkjabandalagið hafa að undanförnu framkvæmt prófanir með fötluðum notendum og tekið saman atriði sem til staðar þurfa að vera til að vefsíða sé aðgengileg. Þetta er gert að erlendri fyrirmynd og framvegis stendur fyrirtækjum svo til boða að láta framkvæma úttekt á vefnum sínum. Séu vefirnir aðgengilegir eru þeir vottaðir með sérstöku merki.

Með því að taka höndum saman má stórbæta aðkomu og þar með þátttöku fatlaðra að upplýsingasamfélaginu og teljum við það skyldu allra sem með vefmál hafa að gera að taka þessi mál föstum tökum.