Til að vefirnir skili arði


Fyrsta fyrirtækið sem sérhæfir sig í prófunum á viðmóti vefja og hvers kyns kerfum, leikjum eða hugbúnaði hefur verið stofnað á Íslandi. Það heitir Sjá ehf. viðmótsprófanir og að því standa þrjár ungar konur.

Hvers vegna stofnuðu þær þetta fyrirtæki?

Stofnendurnir, Áslaug, Jóhanna og SirrýÁ undanförnum árum hefur orðið gífurleg uppbygging vefja á Íslandi. Flest öll fyrirtæki hafa sett upp vefi og margir hafa farið út í mikla vinnu við að setja upp verslanir og önnur gagnvirk kerfi í þeim tilgangi að koma starfsemi fyrirtækja sinna út á Netið. Ekki þarf að orðlengja það frekar að gífurlegum fjármunum hefur verið kostað í þessa vinnu og auðvitað var
markmiðið að þeir skiluðu þessum fyrirtækjum tekjum til baka.

Sjá miðar að því að aðstoða fyrirtæki við að endurskoða vefi sína og gera þá aðgengilegri fyrir notandann til þess, að sjálfsögðu, að hann nýti sér þá þjónustu sem vefurinn hefur upp á að bjóða og eins til þess að hann hafi áhuga á að heimsækja hann aftur, „segja stofnendur fyrirtækisins, þær Sirrý Hallgrímsdóttir, Jóhanna Símonardóttir og Áslaug Friðriksdóttir.

„Rannsóknir sýna að reynsla notenda hefur úrslitaáhrif á notkun og vinsældir vefja eða kerfa. Skoða verður upplifun notenda til þess að geta gert betur í hönnun og uppbyggingu. Ef notendur finna ekki þá þjónustu sem þeir leita að geta þeir ekki nýtt sér hana. Krafa notenda í dag er að þjónustuferlið sé í samræmi við væntingar notandans út frá því sem hann þekkir áður. Það þykir því óhætt að staðhæfa að með því að bæta nytsemi og aðgengi notandans má tvöfalda notkun vefsvæðis,“ segir Sirrý Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Sjá.

„Sjá veitir ráðgjöf óháða framleiðslunni sjálfri en ráðgjöfin er algjörlega miðuð út frá þörfum og væntingum notandans. Sjá nýtir þá þekkingu sem safnast hefur með rannsóknum á hegðun notenda því notandinn er uppspretta þess að vefir og kerfi gangi upp og skili þeim sem standa að þeim arði.“

Notendur komi aftur Í flestum tilfellum má setja vefi í tvo flokka. Annars vegar upplýsingavefi um fyrirtæki og stofnanir og hins vegar vefi sem hafa mikla gagnvirkni og í sumum tilfellum má segja að fyrirtæki hafi „internetvætt“ starfsemi sína. Flestir úr fyrri hópnum glíma við það vandamál að viðhald vefjarins var vanmetið í fyrstu og sjá fram á að talsverðum kostnaði þarf að fórna í vef sem skilar fyrirtækinu ekki sýnilegum hagnaði. Flestir úr seinni hópnum eiga hins vegar við það vandamál að stríða að hafa kostað til miklum fjármunum við að búa til kerfi sem ekki eru að skila fyrirtækinu þeim hagnaði sem í upphafi var gert ráð fyrir.
„Allt okkar starf miðar að því að gera vefi notendavænni þannig að notendur vilji koma aftur og nýta sér þá. Þannig skilar vefurinn meiri tekjum, „segir Sirrý jafnframt.

Óháðar prófanir

Þremenningarnir sem stofnuðu fyrirtækið hafa starfað við upplýsingatækni um nokkurt skeið. Þær hafa lengi haft áhuga á notendaprófunum en komust snemma að þeirri niðurstöðu að mikilvægt væri að sami aðilinn væri ekki bæði í framleiðslu vefja eða kerfa og prófunum á þeim. Því ákváðu þær að stofna Sjá, sem sérhæfir sig í nytsemismælingum og úttektum á viðmóti.
Fyrirtækið sér um prófanir og veitir fyrirtækjum ráðgjöf sem miðar að því að bæta viðmót, hönnun og innra skipulag vefja. Með því að kanna vandamál sem upp koma við notkunina á vefnum og leggja mat á hann, bæði hvað varðar virkni og viðmót, sparast kostnaður vegna endurhönnunar, nytsemin eykst verulega og líkurnar á vinsældum vefjarins aukast.

„Fyrirtæki af þessu tagi eru starfandi um allan heim, þó má segja að fyrirmyndin sé sótt til Bandaríkjanna. Við bjóðum upp á ýmsar þjónustuleiðir sem miða að þessu, svo sem nytsemismat, sérfræðingamat, samkeppnisyfirlit, almenna ráðgjöf og námskeið af ýmsu tagi,“ segja þær hjá Sjá.

Sjá leggur aðaláherslu á framkvæmd nytsemismats eða notendaprófana. Við framkvæmd slíks mats er lögð áhersla á að nóg sé að prófa fjóra til fimm notendur í hvert skipti, en sýnt hefur verið fram á að það skilar um 80-90 prósentum af því sem að betur má fara. Séu fleiri notendur prófaðir í einu eru sömu vandamálin farin að koma upp aftur og aftur hjá ólíkum notendum.

Þátttakendur prófunarinnar fá til úrlausnar verkefni sem eru sérstaklega hönnuð til að kanna viðmót og notkun á viðkomandi vef eða kerfi. Sjá sér um framkvæmd prófunarinnar. Ferlið er eitthvað á þá leið að sett eru niður markmið og tilgangur þess kerfis sem á að prófa og verkefnin sem lögð eru fyrir þátttakendurna eru útbúin. Þá þarf að finna þátttakendur í rannsóknina sem endurspeglar markhóp vefjarins. Setja þarf upp hjálpartæki, framkvæma prófunina og greina niðurstöðurnar en þær eiga að gefa fyrirtækjum raunhæfa mynd af því hvernig notendurnir upplifa vefinn og þá þjónustu sem hann á að veita.

Sé mikið ósamræmi á milli þess hvernig notandinn skilur viðmótið og hvernig kerfið virkar eru mjög litlar líkur á því að það nái vinsældum. Því betur sem notandinn nær að skilja viðmótshönnunina þeim mun líklegra er að kerfið njóti vinsælda og geti talist nytsamt. Nytsemismæling er aðferð sem miðar að því að bæta hönnun viðmóts með því að safna gögnum um notendur. Lögð er áhersla á að safna gögnum um notandann með því að fylgjast með hvernig samskipti hans við kerfið ganga og er talið að sú leið skili nákvæmari og haldbærari upplýsingum en spurningalistar sem notendur fylla sjálfir út.

Vefir eru mikilvægt viðskiptatæki

„Best væri að gera viðmótsprófanir reglulega, ekki bara einu sinni og svo ekki söguna meir. Þetta fer þó mikið eftir því hversu hröð þróun vefjarins er. Það borgar sig fyrir fyrirtæki, sem á annað borð hefur fjárfest í vef, að viðhalda og þróa hann stöðugt. Líta þarf á vefinn sem mikilvægt viðskiptatæki því að öðrum kosti er fjárfestingin vannýtt. Jafnframt hafa mörg fyrirtæki lent í þeim vítahring að vanmeta þá vinnu sem fólgin er í að innleiða nauðsynlega vinnuferla innan fyrirtækisins svo vefurinn geti mögulega skilað þeim árangri og tekjum. Þó má segja að í dag sé ákveðin vakning hjá fyrirtækjum,“ segja þær.

Margt getur haft áhrif á það hvernig til tekst með vefi fyrirtækja. Nauðsynlegt er að fyrirtæki hafi skýra mynd í upphafi af því hverju vefurinn á að skila og hvernig hann á að endurspegla rekstur og starfsemi þess, alveg eins og hvert annað útibú. Einnig er nauðsynlegt að vera með skýrar reglur um það hvernig á að starfrækja vefinn, hvernig staðið er að því að uppfæra hann og þróa og hvaða starfsmaður eða starfsmenn bera ábyrgð á vefnum og starfsemi hans. Grafíkin á vefnum þarf einnig að vera í samræmi við tilgang hans, ekki endilega skrautleg og flott, heldur miklu frekar þannig að hún stuðli að því að vekja áhuga hjá rétta markhópnum. Þá þarf líka að horfa í málfarið á vefnum en það verður að vera gott. „Málfarið skilar sér til notandans. Það truflar notandann ef málfarið er rangt eða textinn of flókinn og illa skrifaður,“ segja þær.
Framtíðarsýn Sjá er að byggja upp rannsóknarmiðstöð á Íslandi hvað varðar nytsemi og notendaprófanir.

Heimild: Femin.is og Frjáls verslun 2001
Eftir Guðrúnu Helgu Sigurðardóttur
Mynd: Geir Ólafsson