Nýlega birti Jakob Nielsen grein um tíu innri vefi sem valdir voru bestir árið 2008 í vikulega veftímariti sínu Alertbox, en undanfarin ár hefur hann framvæmt ítarlega úttekt og samanburð á innri vefjum fyrirtækja. Þrjú fjármálafyrirtæki eru á listanum en þau verja óhemju fjármagni til þess að vinnulag og samskipti séu sem skilvirkust og hagkvæmust. Flest fyrirtækin á listanum eru mjög stór, með að meðaltali 50.000 starfsmenn. Á listanum er þó ein lítil stofnun, Samgönguráðuneyti Nýja Sjálands með 200 starfsmenn. Þetta eru áhugaverðar fréttir fyrir Ísland og sýnir að smærri fyrirtæki og opinberar stofnanir ættu að sjá tækifæri í góðum innri vefjum. Fríða Vilhjálmsdóttir tók saman efni þessarar greinar og birtist umfjöllun hennar nýverið í Morgunblaðinu.
Í samantekt Jakob Nielsen koma fram atriði sem bestu innri vefirnir eiga sameiginleg. Flestir innri vefir á listanum notuðu mesta plássið á forsíðunni fyrir fréttir. Innri vefir eru kjörin leið til þess að koma á framfæri ýmsum upplýsingum, fréttum og skilaboðum til starfsmanna. Þá eru myndskeið einnig að verða vinsælli á innri vefjum til þess að koma upplýsingum á framfæri, þau eru skemmtileg viðbót við upplýsingar á textaformi og hægt er að koma miklu efni til skila með stuttu myndskeiði.
Fyrir nánari upplýsingar um innri vefi er hægt að hafa samband við sja@sja.is eða hringja í síma 511-3110.