Gott aðgengi á vefjum borgar sig!

Það borgar sig eins og allir vita að gera vefsíður (og þar með þjónustu og upplýsingar) aðgengilegar á Netinu. Hér er verið að tala um gott aðgengi allra að upplýsingum og upplýsingum á Netinu og ekki síst aðgengi fatlaðra eins og blindra, sjónskertra, hreyfihamlaðra, heyrnarlausra og lesblindra. Fyrirtæki og stofnanir reiða sig sífellt meira á vefsíður sem upplýsingaveitu/kynningarbækling á Netinu og því er enn mikilvægara en áður að gera allt sem aðgengilegast.

Gott aðgengi er ekki aðeins mikilvægt út frá siðferðislegu sjónarhorni heldur skiptir það líka máli fyrir fjárhagslegan ávinning þeirra sem reiða sig á innkomu hvers konar af vefsíðum. Það nefnilega þarf ekki að kosta miklu til að gera vefinn mun aðgengilegri og skila töluverðum hagnaði. Það hljóta að vera góðir viðskiptahættir að gera vörur, þjónustu og jafnvel auglýsingar aðgengilegar öllum, sérstaklega þegar haft er í huga að 10% landsmanna hefur einhverja fötlun (og aldraðir með skerðingu á sjón og hreyfifærni eru ekki inni í þeim tölum). Aðgengilegri vefur er líka nánast alltaf notendavænni vefur og skilar sér betur í leitarvélum. Nýleg rannsókn sem gerð var af The Customer Respect Group (TCRC) og er birt á vef Usability News sýnir einmitt fram á aukinn hagnað á aðgengilegum vefjum stórfyrirtækja.

Rannsókn TCRC snerist um aðgengi vefsíða í Fortune 100 fyrirtækjum (eins og metið af Fortune samsteypunni) og var metið út frá gátlistum aðgengi sjónskertra, blindra, þeirra með greindarskerðingu og þeirra sem höfðu skerta hreyfifærni. Einnig voru tekin viðtöl við framkvæmdarstjóra 10 aðal fyrirtækjanna t.d. Verizon Wireless, Southwest Airlines, General Electric, Proctor & Gamle, TIAA-CREF, Washington Mutual og fleiri. Þeir sem tóku viðtölin vildu fá að vita hver hvatinn fyrir bættu aðgengi var sem og framtíðarsýn stjóranna.

Framkvæmdarstjórnarnir voru allir sammála um að þeir fyndu fyrir aukinni sölu á vörum, aukinni umferð, fleiri viðskiptatækifærum og meiri tryggð viðskiptavina. Einnig kom þeim á óvart að eldri notendum fannst þjónustan batna við en slíkt er kannski eðlilegt þar sem eldri notendur eru oft farnir að missa sjón og hreyfigetu en þetta er fólkið sem hvað mest vill (og hefur fjárráð til) kaupa á Netinu. Samkvæmt ransókninni þá voru farsælustu fyrirtækin með gott aðgengi notenda að leiðarljósi þ.e. aðgengi var hluti af heildarmyndinni. Að fjarlægja hindranir fyrir núverandi og væntanlega viðskiptavini var það sem skipti mestu máli að þeirra mati. Rannsóknin sýndi einnig að mörg helstu fyrirtækin í Fortune 100 eru byrjuð að skoða aðgengismálin sem lykilþátt í að ná til sem flestra viðskiptavina. Eins og forstjóri The Customer Respect Group bendir á „Fyrirtæki á alþjóðlegum markaði hefur ekki efni á að bjóða upp á vöru sína einungis til útvaldra (ófatlaðra). Það að hindra notendur í að stunda viðskipti sín á Netinu er fráleitt. Fjárfesting í aðgengi er ekki aðeins skynsemi heldur nauðsynlegur hluti af því að ná til sem flestra viðskiptavina sem og til að auka veltu og gróða“. Það er gaman að hafa þetta á bak við eyrað þegar haft er í huga að sala á Netinu var 2.4 billjónir dollara árið 2003 í Bandaríkjunum eingöngu og hefur alveg örugglega ekki minnkað síðan!