Amazon með nýjan vef – stundum

Amazon (bæði Amazon.co.uk og Amazon.com) er líklega einn þekktasti söluvefur í heimi. Forsvarsmenn vefsvæðisins einbeittu sér í fyrstu að sölu bóka en á vefnum er nú einnig hægt að kaupa tónlist, mynddiska, föt og margt fleira. Amazon er ekki síður þekkt fyrir nýjung í uppsetningu leiðarkerfis þ.e. með notkun svokallaðra flipa þar sem hver flipi er eins og flipi í spjaldskrá sem notendur fletta á milli. Síðan eru liðin rúm 10 ár. Síðan þá hafa þúsundir vefsíðna hermt eftir leiðarkerfinu enda hefur það sýnt sig að leiðarkerfið virkar vel fyrir notendur.

Skjáskot af nýju útliti Amazon, fliparnir eru hér horfnir

Nú er hins vegar öldin önnur, Amazon.com hefur hent út gamla flipakerfinu og sitt sýnist hverjum um ágæti þess enda hafa þeir tekið upp hinar illræmdu „gardínur”. Svokallaðar gardínur (farið er með mús yfir tengil og þá birtast fleiri valmöguleikar til hliðanna eða fyrir neðan allt eftir því hvernig leiðarkerfið er skipulagt)  eru gríðarlega erfiðar notendum með skerta hreyfigetu. Þær eru líka erfiðar blindum notendum sem reiða sig einnig á TAB hnappinn  til að ferðast á milli tengla og svæða á vefnum.

Það virðist vera sem Amazon sé ekki að fullu sátt við nýja útlitið þar sem í 6 mánuði vefurinn breytist úr þeim gamla yfir í þann nýja, jafnvel oft í viku. Ástæðan fyrir þessu segja þeir vera að þeir séu enn þá að „prufukeyra” nýja útlitið. Þeir segjast hafa farið um allan heim til að ráðfæra sig við notendur (þeir komu ekki við á Íslandi..það er alveg á hreinu). Eitt er víst að ekki er hægt að nota TAB hnappinn til að ferðast um vefinn og þar með er hann úr sögunni fyrir fjölmargar notendur. Við skulum vona að bragarbót verði gerð á.