Vefnotendur eru að verða eigingjarnari

Á vef BBC nýlega var skemmtilegt viðtal við vefgúruinn Jakob Nielsen. Í viðtalinu talar Nielsen um að notendur vefja séu að verða eigingjarnari og miskunnlausari. Nielsen styður þessa fullyrðingu með skýrslu um hegðun notenda og segir að þeir séu óþolinmóðari og vilji klára það sem þeir ætla sér á sem minnstum tíma. Notendur dvelja ekki lengur á vefsíðum og tilraunir til að halda notendum á vefsíðum hafa mistekist. Gylliboð virka ekki lengur að mati Nielsen.

Í dag skipta leitarvélar öllu máli og notendur fara á vefi með því markmiði að klára ákveðið verkefni (t.d. finna upplýsingar eða kaupa vöru). Notendum gengur líka betur að klára verkefni á Netinu en áður. 75% notenda klára verkefnið sem þeir ætluðu sér en 1999 voru aðeins 60% sem tókst það. Nielsen gefur tvær ástæður fyrir þessu þ.e. hönnun vefja er betri en áður fyrr og notendur eru einnig orðnir vanari vefumhverfinu en áður.

Nú þegar notendur fara á Netið vita þeir hvað þeir vilja og hvernig þeir geta nálgast það. Þetta einbeitta hugarfar gerir það að verkum að mun erfiðara er fyrir ritstjóra vefja eða auglýsendur að ná athygli notenda en
áður. Nielsen segir að notendur vilji að vefirnir komi sér að efninu og það strax, þeir hafa afar litla þolinmæði. Nielsen telur enn fremur að ábyrgðarmenn vefja séu almennt ekki að taka þessa þróun með í reikninginn. Auðvitað finnst hverjum og einum sinn vefur vera flottur og áhugaverður og að notendur séu ánægðir með hvað sem á vefjunum er birt. Notendur eru einnig að verða sífellt þreyttari á þessum aukaforritum og búnaði sem boðið er upp á til að gera vefsíður skemmtilegri eða áhugaverðari. Slíkt hægir einnig á hleðslu vefsíðunnar.

Í ljósi þessa er áhugavert að skoða hvernig hegðun notenda hefur breyst varðandi mikilvæg verkefni. Árið 2004 voru 40% sem heimsóttu forsíðu vefjar og 60% fóru þaðan dýpra inn í síðuna sjálfa. Árið 2008 eru aðeins 28%
notenda sem fara í gegnum forsíðu vefjar. Hinir nota leitarvélar og komast beint á þann stað sem þeir vilja án þess að fara á forsíðu vefjarins. Leitarvélar skipta öllu máli að mati Nielsen. Hann bætir þó við að þær séu
ekki fullkomnar og oft finna notendur ekki það sem þeir leita eftir.