Prófmál í aðgengi fatlaðra að Netinu í Canada

Bandaríkin hafa leitt stefnur og strauma í aðgengismálum að vefsíðum og alls kyns miðlum og tækni síðustu árin, sérstaklega hvað varðar löggjöf og staðla. Nokkur mál hafa farið fyrir dómstóla og í öllum tilvikum hefur fatlaður vefnotandi unnið málið.

Vefsíður ferðaskrifstofa eru meðal annars þær sem þykja óaðgengilegar og hafa að minnsta kosti tvö mál farið fyrir dóm og fallið stefnanda í vil. Misjafnt er hversu hart er tekið á þessum málum annars staðar og hafa reglur m.a. í Bretlandi og víðar verið hertar gagnvart aðgengi upplýsinga. Canada hefur löngum þótt fyrirmynd annarra hvað varðar aðgengismál á Netinu en breyting virðist hafa orðið þar á.

Nú hefur komið í ljós að réttur fatlaðs MBA nemanda (við hinn virta McGill viðskiptaháskóla) hefur verið brotinn illilega. Þannig var mál með vexti að Donna Jodhan hefur allt sem þarf fyrir starf eitt sem hún hefur áhuga á; góðar einkunnir, góða ferilsskrá, nægilega reynslu en það er einn hængur á. Hún er blind og getur ekki sótt um þá atvinnu sem hún hefur áhuga á vegna þess að vefsíður þær sem bjóða upp á atvinnuumsóknir, voru óaðgengilegar, ekki síst vefsíður ríkisstofnanna. Hún hefur barist fyrir rétti sínum og þar virðist hart mæta hörðu.

Kannanir hafa sýnt að blindir og sjónskertir einstaklingar í Canada þurfa að þola um 70% atvinnuleysi og lifa þess vegna við skerta innkomu. Því er sérstaklega mikilvægt, þar eins og annars staðar, að fötluðum einstaklingum sé gefið tækifæri til að sækja um störf til jafns á við hina. Grundvallarréttur fólks er brotinn, aðgengi er skert og tækifærum til þátttöku í atvinnulífinu er misskipt þó að hæfni og geta sé hin sama hjá öllum umsækjendum. Fyrir flestum er þetta skýrt brot á jafnrétti. Ríkisstjórn Canda hefur ekki sett ákveðna stefnu í þessum málum og er það talin ástæða þess að þeir hafi hellst úr lestinni með  þessum hætti. Ekki fyrir svo löngu var Canada talin fyrirmynd í aðgengismálum á Netinu. Það sem kannski er neikvæðast er að ríkisstjórn Canada reynir að koma sér undan ábyrgð m.a. með því að reyna að fella málið fyrir rétti á grundvelli „tæknilegra atriða“. Donna Jodhan gefst hins vegar ekki upp og verður fróðlegt að fylgjast með baráttu hennar.