Týndur fannst en fundinn hvarf,
að fundnum týndur leita þarf.
Týnist þá en fundinn fer,
að finna þann sem týndur er. (Höfundur óþekktur)
Þessi vísa kom upp í hugann á okkur þegar við lásum nýjustu skýrslu Jakobs Nielsen. Þar fjallar hann um að finna staðsetningu verslana á Netinu í dag eða svokallaða Store Locators.
Lélegt viðmót slíkrar þjónustu getur gert notendum lífið erfitt fyrir. Þetta er kannski ekki stærsti höfuðverkur notenda hér á landi þar sem flestir þeir sem sækja þjónustu í Reykjavík vita hvar hana er að finna. Það þarf þó ekki að vera sjálfgefið og jafn eðlilegt að notendur úr Reykjavík klóri sér í kollinum yfir staðsetningu verslunar utan höfuðborgarsvæðisins. Sjálfsögð þjónusta við notendur er að þeir finni húsnæði verslana á auðveldan og fljótlegan hátt og að þeir þurfi ekki að reiða sig á símann til þess. Erlendis eru jafnvel yfir 20 þúsund verslanir dreifðar um allan heim (sem dæmi Starbucks, Apple, Nike o.fl.) og þá er eins gott að vanda vel til verka. Nielsen rekur í skýrslu sinni að notendavæni slíkrar þjónustu hafi stórbatnað á síðustu 7 árum og að nokkrar grunnreglur liggi þar undir. Enn fremur segir hann að kröfur notenda séu að aukast, ekki sé lengur hægt að bjóða upp á stuttar leiðbeiningar varðandi staðsetningu heldur þurfi meira að koma til. Þau þrjú atriði sem þjónustan snýst um að mati Nielsens:
- Að finna þjónustuna (Store Locator) en hún þarf að vera sýnileg alls staðar á vefnum.
- Að nota þjónustuna til að finna staðsetninguna. Þjónustan þarf að vera notendavæn og skýr.
- Leiðbeiningar um hvernig má finna staðsetninguna. Þurfa að vera skýrar og taka til greina að viðskiptavinir geta verið að koma úr öllum áttum og með mismunandi ferðamáta.
Nielsen tiltekur einnig að sífellt fleiri notendur noti leitarvélina Google
til að finna staðsetningu verslana og er því mikilvægt að þjónustan sé
leitarvélavæn og unnin samkvæmt þeim stöðlum sem þar eru í gildi.
Nielsen býður upp á 143 blaðsíðna skýrslu um þjónustuna sem gaman (en ekki
ódýrt) er að lesa.