Lengi hefur skoðun á leturstækkunum á vefjum verið á öndverðum meiði. Á að bjóða upp á leturstækkanir í hnöppum eða eiga notendur að „læra“ á vafrann til að geta breytt letri sjálfir? Á öðrum endanum höfum við forritara og tæknilega fólkið sem eru harðir á því að notendur eigi að „læra“ á vafrastillingar. Á hinum endanum höfum við fólk, eins og okkur hjá SJÁ sem erum hörð á því að notendur eigi ekki að þurfa að læra eitthvað sem á að vera sjálfsögð viðbót. Það eru sterk rök með og á móti. Þarna á milli lenda notendurnir sjálfir og besta leiðin er að fylgjast með notendahegðun og spyrja þá sjálfa hvað þeir kjósa.
Leturstækkanir eru mögulegar í vafrastillingum. Einnig er stundum hægt að stækka letur með ctrl hnappi og skrunhjóli á mús. Hversu margir notendur vita af þessum möguleika? Ekki margir. Þessi möguleiki nýtist ekki heldur þeim sem hafa skerta hreyfigetu (t.d. þeim sem farnir er að tapa sjón OG eru t.d. aldraðir). Hreyfingin krefst samhæfni. Einnig ber að hafa í huga að þeir notendur sem farnir eru að tapa sjón (eldri kynslóðir) nota ekki neinar „græjur” eins og skjástækkara heldur leita eftir stækkunum á síðunni sjálfri. Það höfum við upplifað til margra ára í gegnum notendaprófanir okkar. Notendur eru almennt ekki meðvitaðir um vafra eða möguleika hans. Þá er spurningin, hver á að kenna þeim, hvar liggur ábyrgðin? Ekki er auðvelt að svara þeirri spurningu. Hins vegar EF notendur lærðu á stillingarnar, væri ekki sérstaklega þörf á sérstökum hnöppum til að stækka letur. Sú ósk er þó draumsýn ein. Einnig er það draumsýn að allir vafrar hafi svokölluð Zoom tól og gallin við slík innbyggð tól er að stafir verða loðnir…þetta mun þó að öllum líkindum lagast með árunum, betri skjám, betri vöfrum o.s.frv.
Að bjóða upp á hnappa til að stækka letur er ekki aðeins gagnlegt fyrir þá sem eru farnir að missa sjón. Þetta geta t.d. verið eldri notendur, (sem munu líklega ekki kaupa sér hjálparbúnað fyrir sjónskerta notendur). Einnig eru þeir sem eru á einhvern hátt óöruggir í notkun á vefjum þakklátir fyrir að geta ýtt á hnapp til að stækka letrið. Þeir sem eru lesblindir eiga oft í töluverðum erfiðleikum með að lesa sig í gegnum flókin orð eins og oft er að finna í vöfrum. Gallinn við þessa nálgun þ.e. að bjóða upp á hnappa er að þeir auka á sjónræna „mengun” á vefsíðum. Að margra mati er þetta mengun sem vel er hægt að lifa við þar sem hún bætir lesskilyrði (ólíkt t.d. auglýsingum). Annar galli er að í sumum tilvikum eru notaðir hnappar eins og „A og A++” en í öðrum eru notaðir textahnappar þ.e. „stækka letur minnka letur” o.s.frv. Þetta krefst þess að notendur læri ólíka framsetningu á milli vafranna. Mestu máli skiptir að bjóða upp á þessa stækkun á sama stað (efst til hægri í stoðflokkum), því notendur eru farnir að leita eftir virkninni þar sem þeir eru vanir henni. Þannig skiptir ekki öllu máli hvort notaðir eru textahnappar eða myndahnappar.
Við hjá SJÁ erum sem sagt fylgjandi því að bjóða upp á hnappa. Við værum það líklega ekki ef við værum ekki búin að grúska með notendum í öll þessi ár og hreinlega spyrja þá, „hvað hentar ykkur?” og fylgjast með hegðun þeirra.
Hversu mikið á að stækka letur? Að mati WAI (Web Accessibility Initiative) þarf letur að stækka 200% án þess að síðan „brotni” til að teljast nægilega mikið fyrir notendur sem farnir eru að tapa sjón.
Frábæra greiningu á þessum vanda má einnig lesa á vef Accessites.