Gerry McGovern skrifar alltaf áhugaverðar greinar og ein af þeim sem hann birti nýverið á vef Giraffe forum fjallar um vefumsjón og hvernig margir misskilja hana, sérstaklega þeir hugbúnaðarsérfræðingar sem hanna tól sem eiga að spara vefstjóra og öðrum tíma og peninga.
Vefumsjón á nefnilega ekki að snúast um sjálfvirk ferli eingöngu og það er beinlínis varhugavert að reiða sig að fullu á tæknina í þeim efnum. Stundum borgar sig nefnilega að fara til baka og skoða grunnþarfir notenda á vefnum, fylgjast með þeim nota ákveðin ferli, spyrja þá spurninga. Hvað er að virka og hvað ekki? Víst er hægt að spara umtalsverða vinnu við vefumsjón með því að notfæra sér allt sem er í boði og auðvitað er mikilvægt að spara þá fjárupphæð sem legið getur í aðkomu starfsmanns. Hins vegar á það við í þessu eins og öðru að maður gæti hugsanlega verið að kasta krónunni til að spara aurinn. Dæmi um slíkt er þegar Amazon bókaverslunin tapaði stórum upphæðum vegna þess að klúður í vefumsjónarkerfinu uppgötvaðist ekki. Það var enginn sem fór yfir villuna fyrr en of seint. Eins og McGovern bendir réttilega á þá skiptir engu máli hversu slakt eða vitlaust efnið er sem birt er á vefsíðum, það lagast ekki sjálfkrafa með vefumsjónarkerfinu, sama hversu gott eða dýrt það er! Skilningur á hegðun notenda er mikilvægari en tæknin þegar kemur að sjálfsafgreiðslu á vefnum.