Niðurstöður – Hvað er spunnið í opinbera vefi 2013?

Niðurstöður úr úttektinni Hvað er spunnið í opinbera vefi 2013? voru kynntar á UT daginn þann 28. nóvember sl. Sjá sá um framkvæmd á úttektinn að þessu sinni og fulltrúi Sjá kynnti helstu niðurstöður á fundinum. Segja má að á heildina litið hafi niðurstöður verið nokkuð jákvæðar. Sé horft til niðurstaðna úr fyrri könnunum til samanburðar hefur þróunin verið jákvæð, þ.e.a.s. heildarskor fer hækkandi og tekur nokkuð gott stökk upp á við núna frá síðustu könnun 2011. Í könnuninni er fjórir aðalþættir skoðaðir – innihald, nytsemi, aðgengi og þjónusta. Allir þættir könnunarinnar hækka frá úttektinni 2011 að nytsemisþættinum undanskildum sem tekur smávægilega dýfu (hugsanlega má skýra hana með breytingum á gátlistanum sem stuðst er við).

Aðgengisþátturinn tekur gott stökk upp á við og er það sérlega ánægjulegt þar sem að úttektin var mun ítarlegri núna en síðast. Nú var stuðst við handvirka úttekt að hluta (60%) en einnig sjálfvirk próf (40%).

Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun er alltaf hægt að gera betur,  sérstaklega ætti að líta til þjónustuþáttarins og stefna að enn betri niðurstöðu næst. Þetta á við um allar stofnanir en þó mættu sveitarfélögin taka þetta til sín ekki síst þau minni en þar er nokkur þörf á breytingum.  Einnig mætti gera átak í að auka virkni á opinberum vefjum sem styðja við rafrænt lýðræði.

Skýrslu um úttektina og niðurstöður má skoða á UT-vefnum en einnig má fletta upp einstökum stofnunum á vef Datamarket.