Bresk börn eru þau sem eru í hvað mestri hættu þegar þau nota Internetið samkvæmt rannsókn á Nethegðun barna í Evrópu en niðurstöður hennar birtust í skýrslu sem kom út 26. september síðastliðinn.
Breskir foreldrar virðast þó vera sannfærðir um að börn þeirra geti staðið óhrædd frammi fyrir þeim mörgu hættum sem Netnotkun býður upp á þ.m.t. hættunni á ýgi (e. aggression), kynferðislegri áreitni eða annars konar innrás inn í einkalíf barnanna. 21 land var borið saman í verkefninu Börn á Netinu (Kids Online) sem unnið var í London School of Economics and Political Science. Löndunum 21 var skipt í þrjá áhættuflokka þ.e. litla áhættu, miðlungs áhættu og mikla áhættu. Rannsakendur fundu út að bresk börn voru í hæsta áhættuflokki og t.d. hafði eitt af hverju fjórum börnum fengið kynferðislegar athugasemdir á Netinu á meðan í Þýskalandi og á Írlandi var hlutfallið eitt barn á móti tíu. Önnur lönd í hæsta áhættuflokki voru Pólland, Búlgaría, Slóvenía, Tékkneska lýðveldið, Eistland, Holland og Noregur. Athygli vekur að Noregur er eina landið innan Norðurlandanna sem fer í hæsta áhættuflokk.
Einnig kemur fram að ungt fólk í Bretlandi ásamt krökkum í Eistlandi, Hollandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Belgíu sé sá aldursflokkur sem mest notar Netið. Ísland er á lista með löndum með hæstu Netnotkun en er einungis spá miðað við fyrri ár þ.e. ekki raunverulegir þátttakendur. Athyglisvert var að spáin gerði ráð fyrir 100% Netnotkun fullorðinna (en var lægri í öðrum löndum).
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar að mati eins höfundarins (Dr. Leslie Haddon) voru þær að reyndari Netnotendur voru ekki í minni áhættu heldur en þeir sem voru óreyndir. Foreldrar í Bretlandi treystu börnum sínum fyrir (og ofmátu) hæfni barna til að takast á við hættuna sem fylgir Netnotkun. Fleiri yngri börn eru nú að fara á Netið (einnig í Bretlandi) og þörf er á að rannsaka frekar reynslu enn yngri barna á Netinu.