Sjá ehf. veitir fyrirtækjum óháða vefráðgjöf. Ráðgjöfin er tvíþætt. Annarsvegar notendaprófanir, að meta hvort hönnun eða uppsetning á vef er notendavæn. Í því felst að athuga hvort hönnunin sé skýr, hvort notendur finni upplýsingar sem í boði eru og skilji hvernig þær eru bornar fram.
Hinsvegar aðstoðar Sjá fyrirtæki við stefnumótun og þarfagreiningu á vefjum. Hvaða efni á að vera á vefnum og hvernig skal uppbyggingu hans vera háttað. Það þarf að íhuga vandlega bæði ytri og innri þætti. Og spyrja: Hvaða þörfum á vefurinn að svara?
Við þessa vinnu beitir Sjá viðtalsgreiningu, rýnihópum og ítarlegri þarfagreiningu.
Yfirleitt er það svo að vefur fyrirtækis þarf að sýna og kynna allt það sem fyrirtækið gerir, segir Áslaug María Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Sjá. „Vinnan sem liggur þar á baki er geysilega mikil.“
Vefurinn þarf að koma gildi fyrirtækisins og hlutverki á framfæri. Sá sem kemur á vefinn þarf strax að skilja hvað fyrirtækið gerir, hvert það er að fara og hverjum það er þjóna.
„Vefurinn sem slíkur snertir afskaplega margt innan fyrirtækisins,“
segir Áslaug María.
Sjá beitir ákveðnum aðferðum við notendaprófanir og skilar niðurstöðum og tillögum að breytingum til þeirra sem eiga vefinn svo hægt sé að bæta úr því sem miður fór.
Það fer eftir markhópi vefjarins hverjir eru valdir til þess að taka þátt í notendaprófunum.
Notendaprófunin fer þannig fram að notendur eru fengnir til að koma á skrifstofu Sjá og leysa fyrirfram skilgreind verkefni á vefnum undir eftirliti. Allt það sem notandinn gerir á skjánum er svo tekið upp.
Slíkar prófanir er hægt að framkvæma hvort sem vefurinn er nú þegar í notkun, nýkominn úr smíði eða er jafnvel nýtt útlit frá hönnuði. Þá er mikilvægt að meta hvort útlitið sé skiljanlegt, segir Áslaug María.
Þeir sem hanna og smíða vefi sjá oft ekki heildarmyndina þegar þeir eru búnir að eyða miklum tíma í verkefnið.“Koma ekki auga á það sem venjulegir notendur sjá strax,“ segir Áslaug og bendir að hún sé ekki að tala illa um hönnuðina.
Það er okkar markmið að hjálpa hönnuðunum að gera betri vefi, segir Áslaug.
Aðgengi fyrir fatlaða
Sjá sérhæfir sig einnig í því að taka út vefi með aðgengi fyrir fatlaða í huga. Það er afmarkaður notendahópur sem þarf sérstaka skoðun.
Blindir nýta sér búnað sem les heimasíður upphátt. Til þess að búnaðurinn geti gert það almennilega er nauðsynlegt að kóðinn á bakvið vefinn er rétt skrifaður.
„Fyrirtæki sem smíða vefi og umsýslubúnað fyrir þá eru mjög mikið að koma til móts við þessar þarfir,“
segir Áslaug María. Það er hægt að forrita myndatexta á þá vegu að hann les upp það sem stendur á myndinni, og eins ef efni myndarinnar er mikilvægt þá er hægt að útskýra myndina fyrir þeim blinda. Það er lítil fyrirhöfn að bæta þessum möguleika inn.
Lesblindir er annar hópur sem þarf að hafa í huga. Áslaug María leggur til að fyrirtæki bjóði upp á þann möguleika að leyfa þeim er skoðar síðuna að breyta um bakgrunnslit sem og stærð og lit á letrinu.
Einnig verður að huga að hreyfihömluðum. Sumir geta einungis notað einn takka og því er mikilvægt að skipuleggja vefinn þannig að hægt sé komast leiðar sinnar á einfaldan máta með ýmsum flýtileiðum sem lyklaborðið býður upp á (t.d. að nota tab-hnapp til að komast á milli svæða).
Svo eru það heyrnalausir. Þeir hafa annan, eða skertan málskilning á við heyrendur. Því er betra að hafa textann einfaldan og alls ekki skammtafstafa. Það gæti verið ráðlegt að bjóða upp á táknmál ef um flókið efni er að ræða, segir Áslaug María.
Vita fyrirtæki almennt af viðmótsprófunum?
“Við erum búin að vinna að þessu í fimm ár og þetta er kennt í tölvunarfræði. Því þekkja þeir til sem eru að vinna í þessum geira.Það vill samt brenna við að þetta sé ekki notað innan fyrirtækjanna í þróuninni,”
segir Áslaug María.
Er mikið sem þarf að laga?
“Það er ofboðslega misjafnt,”
segir Áslaug. “Stundum þarf að gjörbreyta vefnum. Oft er það þó svo að hægt er að byggja á því sem fyrir er. Það er ekki nauðsynlegt að henda vefnum og gera nýjan. Við reynum að gera það þannig að hægt sé að laga það sem fyrir er,”
segir Áslaug.
Ef það á að byggja upp nýjan vefinn er Sjá mikilvægt innlegg inn í það ferli, segir Áslaug.
Hver eru dæmigerð mistök við gerð vefsvæða?
Það er ekki verið að taka vitneskju starfsfólks fyrirtækjanna inn í greiningarvinnuna. Starfsfólkið veit oft hvað þarf að vera á vefnum því það gjörþekkir viðskiptavininn og þarfir hans – en það gleymist að tala við það, segir Áslaug.
Önnur algeng mistök er að fyrirtæki byggja upp vef og leggja mikla peninga í markaðsetningu en eru ekki búin að notendaprófa hann og athuga hvort hann virkar og standist þær kröfur sem gerðar eru til hans.