Opni háskólinn í HR kynnir nýtt hagnýtt lengra nám: Viðskipti um vefinn. Námið er 45 klst. þverfaglegt nám um viðskiptahætti á netinu, sem byggir m.a. á vinnu nemenda með eigin verkefni eða viðskiptahugmynd. Þátttakendur fá faglega leiðsögn og stuðning fræðimanna, gestakennara úr atvinnulífinu og annarra sérfræðinga. Námið er fjölbreytt og hagnýtt og gefur innsýn í tæknilega, markaðslega og rekstrarlega þætti í farsælum viðskiptum um vefinn. Sjá kemur að skipulagningu og kennslu á hluta námskeiðsins.
Fyrir hverja?
Námskeiðið hentar öllum þeim sem stunda eða hafa hug á að stunda viðskipti á netinu og byggja upp farsælan rekstur með sölu á vöru og þjónustu á þessu öfluga markaðstorgi. Námið hentar einnig þeim sem hafa áhuga á að ná sér í aukna þekkingu og færni í viðskiptaháttum um vefinn svo sem einstaklingum sem:
- Vilja nýta sóknarfæri netsins í núverandi rekstri á sviði verslunar eða þjónustu.
- Vilja koma nýrri vöru eða þjónustu á framfæri á vefnum.
- Miðla list um vefinn; m.a. hönnuðir, tónlistarmenn og leikarar.
- Hafa hug á að hagnýta vefinn við fjölmiðlun.
- Vilja stunda rekstur að heiman.
- Hafa áhuga á tækifærum sem leynast á netinu og hvernig hægt er að mynda tekjur þar.
- Vilja sjálfstæði, sveigjanlegan vinnutíma og tilbreytingu.
Námskeiðið skiptist í eftirfarandi hluta:
Frumkvöðlastarf og rekstur á vefnum
Fjallað verður um hvernig unnið er úr viðskiptahugmyndum og hvernig hægt er að þróa þær í formlegt ferli sem er grundvöllur að góðum rekstri. Nemendur vinna að sinni eigin hugmynd í gegnum námið og öðlast víðari sýn við hina ýmsu þætti hugmyndavinnunnar og fá einnig leiðsögn um hvernig á að stofna og reka eigið fyrirtæki á hagkvæman hátt.
Vefhönnun og vefstjórnun
Farið er yfir einkenni áhrifaríkra vefsíðna. Fjallað verður um þá þætti sem þarf að huga að við hönnun og tæknilegan rekstur vefsíðna s.s. þarfagreiningu, hlutverk og ásýnd vefsins, hönnunar- og uppsetningarferli sem og efnisumsýslu og vefstjórnun.
Markaðssetning á vefnum
Farið er í grunnhugtök tengd viðskiptum og markaðssetningu á Internetinu. Farið er vandlega í gegnum helstu leiðir og nýjungar sem eru boði á þessum vettvangi s.s. markaðssetning á leitarvélum, vefborðar, rafræn fréttabréf, markaðssetning á samfélagsvefjum ásamt því hvernig á að meta og mæla árangur í viðskiptum og markaðsstarfi á netinu.
Nánar um námskeiðið – Viðskipti um vefinn – á vef Opna háskólans.