Í nýjustu grein New Thinking skrifar Gerry McGovern nokkur orð um auglýsingar og vanmátt þeirra í dag. Að hans mati virka hefðbundnar auglýsingar ekki nema á stöðum þar sem nægur tími er til staðar en lítill peningur. Hér áður fyrr vorum við tilbúin til að horfa á hvað sem var en sú er ekki raunin lengur.
Til dæmis horfðum við á bílaauglýsingu þó við værum ekki að fara að kaupa bíl og við horfðum á bleyjuauglýsingar þó við ættum ekki barn. Svo kom Netið. Netið að mati McGovern er stærsta og öflugasta fjarstýring sem til er. Þar eru það við sem veljum hvaða auglýsingar við horfum á. Við getum stoppað, spólað áfram og bakkað eða hvað annað sem okkur sýnist, þegar okkur sýnist. Samkvæmt skýrslu sem kom út í febrúar á þessu áru segja 62% markaðsfræðinga að hefðbundnar sjónvarpsauglýsingar hafi ekki eins mikið vægi nú og fyrir 2 árum. Í könnun Alþjóðasamtaka auglýsenda og Forrester voru 87% svarenda sem sögðu að þeir myndu eyða meiri peningum í auglýsingar á Netinu en áður.
Samkvæmt McGovern eru markaðsfræðingar og vefsíður að berjast við að færa Netauglýsingar í átt að einhverju sem líkist sjónvarpsauglýsingum en án þess að áhugi notenda hverfi. Áhuginn hverfur hins vegar eins og hann gerir með hefðbundnar auglýsingar í sjónvarpi. Þessi framsetning virkar sem sé ekki að mati McGovern. Kannski má líkja þessu við að rækta hraðskreiðari dúfur til að keppast við Internetið í að koma skilaboðum áleiðis. Hann segir að markaðsfólk virðist ekki átta sig á því að við hinir almennu notendur þolum illa hefðbundnar auglýsingar, í besta falli eru þær pirrandi og óviðeigandi og í versta falli móðgandi og tilætlunarsamar. Samkvæmt rannsóknum munu hefðbundnar auglýsingar hafa þriðjungi minni áhrif árið 2010 en árið 1990.
Svo tekur McGovern sem dæmi Google, Yahoo og aðrar vefsíður sem hala inn auglýsingatekjum en auglýsa á mjög ólíkan hátt en aðrir. Auglýsingar t.d. á Google eru miðaðar út frá notandanum og þar geta auglýsingar verið afar gagnlegar án þess að vera uppáþrengjandi. Google býður upp á 17 orð af texta í hliðardálkum en þessi 17 orð eru afar áhrifamikil og skila Google gríðarlegum tekjum. Á tímum þar sem við höfum engan tíma en mikla peninga og fyrir upptekna fólkið í dag þá virðist þetta vera sú leið sem er að virka.