Aðgengi að vefjum á Netinu hefur stórlagast á undanförnum árum en betur má ef duga skal. Algengt er að 80-90% vefja séu óaðgengilegir fötluðum notendum og þá aðallega blindum og sjónskertum. Ástandið er nokkuð skárra hérlendis en í nágrannalöndum okkar þar sem allt að 95% vefja eru óaðgengilegir fötluðum. Þess má geta að í Bretlandi eru blindir og sjónskertir um 2 milljónir en um 1500 manns hér á landi. Þessir 1500 eru ekki lítill hópur þegar haft er í huga að þeir, líkt og aðrir, vilja gjarnan geta verslað sér þjónustu og vörur á Netinu svo dæmi sé nefnt. Mikilvægt er að huga að því að gera upplýsingar og þjónustu sem aðgengilegasta. Forsætisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið gáfu út skýrsluna Aðgengi allra að vefjum í janúar 2006.
Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur um aðgerðir sem stuðla að því að fatlaðir og aðrir hópar sem gefa þarf sérstakan gaum í upplýsingasamfélaginu geti nýtt sér þjónustu á Netinu. Ákveðið hefur verið að fara að þeim tillögum sem lagðar eru fram í skýrslunni og stefna að því að allir opinberir vefir á Íslandi uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur í aðgengismálum. Fyrirtækið SJÁ sinnir ráðgjöf til fyrirtækja í þessum málum.
Hvað er SJÁ
SJÁ ehf – Óháð ráðgjöf er fyrirtæki sem sérhæfir sig í að veita fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf varðandi vefmál. Hvort sem það eru kerfisprófanir, viðmótsprófanir, stefnumótun eða þarfagreining á ytri jafnt sem innri vefjum eða aðgengismál þá hefur SJÁ sérfræðiþekkinguna og getur gripið inn á öllum stigum í þróun vefjarins. Fyrirtækið hefur starfað frá árinu 2001 og eftirspurn eftir þjónustu eykst stöðugt ekki síst hvað aðgengismálin snertir þar sem sífellt fleiri eru orðnir meðvitaðir um mikilvægi aðgengilegra upplýsinga og þjónustu.
Vottun vefja – samstarf við Öryrkjabandalag Íslands
Árið 2004 hóf SJÁ samstarf við Öryrkjabandalag Íslands með vottun vefja í huga. Vottun vefja þýðir að viðkomandi vefur sem hefur farið í gegnum aðgengisúttekt hjá SJÁ og staðist ákveðnar kröfur fær vottun og getur birt táknmynd á vef sínum. Vottun byggir á forgangi 1 (mikilvægustu atriðin varðandi aðgengi), vottun á forgangi 2 og svo vottun á forgangi 3. Alþjóðlegum gátlistum varðandi aðgengi er fylgt (WCAG WAI) en SJÁ hefur staðlað gátlistann miðað við íslenskar aðstæður og notendur. Gátlistinn var einnig prófaður í samvinnu við fatlaða notendur á Íslandi.
Vottaðir vefir
Fjöldi vefja hefur þegar verið vottaður og sífellt fleiri bætast við. Sem dæmi um þá vefi sem hafa fengið vottunarmerki SJÁ og Öryrkjabandalagsins má nefna:
Forgangur 1, 2 og 3
- Tryggingamiðstöðin
Forgangur 1 og 2
- NB (Netbankinn)
- Heimabankinn
- FMR (Fasteignamat ríkisins)
- FSR (Framkvæmdasýsla ríkisins)
- Glitnir
- Ísland.is
- Seltjarnarnes
Forgangur 1
- Bókasafn Reykjanessbæjar
- HÍ (Háskóli Íslands)
Lykilatriði varðandi aðgengi á vefjum
Það sem skiptir mestu máli varðandi aðgengi blindra notenda að vefjum:
- Hafið ALT texta skýra og greinilega á myndum.
- Merkið myndir sem ekki skipta máli sem tómar þ.e. alt="". Ekki merkja þær sem "skreytimynd" eða "lína" eða álíka. Slíkt ruglar aðeins notendur.
- Merkjið alla myndatengla með skýrum ALT texta, tilgreinið hvert efni myndatengilsins er og hvert er verið að leiða notendur. Dæmi um það væri til dæmis auglýsing um þjónustu á annarri vefsíðu.
- Bjóðið notendum upp á að geta farið beint í meginmál vefjarins með sérstökum tengli.
- Merkjið töflur rétt.
- Notið fyrirsagnir rétt (þ.e. HEADINGS eigindið) og hafið þær skýrar.
- Hafið tenglanöfn skýr og greinileg. Ekki nota tenglanöfn eins og "hér", "meira", "nánar".
- Forðist flóknar skammstafanir og ef skammstafanir eru notaðar, útskýrið þær í fyrsta skipti sem þær koma fyrir.
- Forðist að nota Flash myndir en slíkar myndir eru óaðgengilegar blindum notendum.
- Forðist að nota PDF skjöl og ef þau eru notuð, notið þá hreinan texta eins mikið og mögulegt er (ekki flóknar skýringamyndir, töflur o.þ.h.).
Það sem skiptir mestu máli varðandi aðgengi sjónskertra notenda að vefjum:
- Forðist texta í smáu letri.
- Bjóðið notendum upp á að geta stækkað letrið á skjánum.
- Bjóðið notendum upp á að geta breytt bakgrunnslit og stafalit á skjánum.
- Forðist að nota myndir í stað leturs því þeim er ekki hægt að breyta með t.d. öðruvísi litum.
- Forðist auglýsingar með of hröðum, hreyfanlegum texta.
- Forðist að nota litasamsetningar sem eru óskýrar t.d. hvítt letur á svörtum grunni, ljósbrúnt letur á gulum grunni, ljósappelsínugult letur á bláum grunni o.s.frv. Drappaður bakgrunnur með svörtu letri reynist flestum best.
Kostnaður við að gera vef aðgengilegan?
Misjafnt er hvað kostar að gera vef aðgengilegan en það fer allt eftir hvernig vefurinn var hannaður þ.e. hvort tekið hefur verið tillit til aðgengis, hversu umfangsmikill vefurinn er og hversu langt í aðgengismálunum á að ganga þ.e. vottun 1, 2 eða 3.
Hvert er hægt að snúa sér?
Hægt er að hafa samband við SJÁ í síma 5113110 og fá ráðgjöf en einnig má senda tölvupóst á adgengi@sja.is með ábendingar eða spurningar. Ef þú hefur t.d. ábendingar varðandi slæmt aðgengi á vef máttu gjarnan senda okkur línu. Eins ef þú ert með vefsíðu sem þú vilt gera aðgengilegri skaltu endilega hafa samband.