Vefur Veðurstofu aðgengilegastur

Vefur Veðurstofu Íslands er einn aðgengilegasti veðurstofuvefur Evrópu

Veðurspá og veðurumræður eru nokkurs konar þjóðaríþrótt landsmanna. Flestir Íslendingar hafa skoðun á veðrinu og farið er eftir veðurspám eins og orðum spámanns. Nýverið hlaut vefur Veðurstofu Íslands, vedur.is, vottun Öryrkjabandalags Íslands og Sjá ehf. um gott aðgengi fyrir fatlaða notendur. Vefurinn er vottaður um forgang 1 og 2, en forgangur 1 er nú sú lágmarkskrafa sem gerð er varðandi aðgengi að vefjum. Notað er Eplica vefumsjónarkerfið frá Hugsmiðjunni en Helgi Borg sá um verkefnisstjórn og útfærslu á sérhæfðum einingum vefjarins. Fjölmargir starfsmenn Veðurstofunnar komu einnig beint að verkefninu. Fyrirtækið SJÁ ehf. veitti ráðgjöf varðandi aðgengismál áður en að vefurinn hlaut vottun. Ekki er ofsögum sagt að grettistaki hafi verið lyft því vefurinn er tæknilega umsvifamikill ásamt því að vera efnismikill. Það er ekki lítið verkefni að búa til vef sem allir landsmenn þekkja og hafa skoðun á. Síst er verkefnið minna þegar haft er í huga að allir þurfa að vera sammála um að vefurinn virki, sé fallegur, vel hannaður, notendavænn og síðast en ekki síst aðgengilegur öllum notendum, fötluðum jafnt sem ófötluðum. Umtalsverður tími fór í að finna lausnir til að tryggja aðgengi skjálesara að efni en þá nota blindir notendur þegar þeir skoða vefi. Vinnan hefur þó skilað sér í betri vef fyrir alla notendur.

Samanburður við aðra sambærilega vefi

Við samanburð á vefjum annarra evrópskra veðurstofa kom í ljós vefur Veðurstofunnar stendur nú fremstur þeirra hvað varðar aðgengi. Stuðst var við við lista frá World Meteorological Organization (WMO)1) Gerð var stutt úttekt á aðgengi vefjanna og kom í ljós að aðeins tveir aðrir vefir hefðu hugsanlega með lagfæringum komist í gegnum vottun um forgang 1. Enginn vefjanna var hins vegar nálægt því að komast í gegnum vottun um forgang 2. Sumir vefir voru það óaðgengilegir að blindur einstaklingur hefði átt í töluverðum vandræðum með að lesa veðurspár og margir hreyfihamlaðir einstaklingar hefðu jafnvel ekki átt neinn möguleika á því að vafra um suma vefina. Sumir sjónskertir einstaklingar hefðu einnig átt í miklum erfiðleikum.

Endurbætur á vef Veðurstofunnar

Það sem hefur verið gert á vefnum til að auka aðgengi að vef Veðurstofunnar:

  • Hægt er að skoða staðarspár, veðurathuganir og upplýsingar um jarðskjálfta í skjálesara ásamt öllu öðru efni.
  • Hægt er að stækka og minnka letrið á skjánum.
  • Sérstakar stillingar (stillingar.is) eru í boði fyrir lesblinda notendur.
  • Hreyfihamlaðir notendur geta vafrað um vefinn án þess að nota músina.
  • Öll tenglaheiti eru skýr.
  • Myndir í greinum hafa útskýringatexta (ALT texta).
  • Fyrirsagnir eru merktar sérstaklega fyrir skjálesara.
  • Tegund viðhengja eru útskýrð.
  • Orðskýringar eru til reiðu.
  • Leiðbeiningar og útskýringar fyrir allar helstu síðurnar sem birta lifandi gögn eru til reiðu.
  • Skammstafanir eru útskýrðar.
  • Notkun á PDF skjölum er takmörkuð og þar sem þau eru notuð, eru það aðgengileg skjálesurum.

Í næsta áfanga stefna forsvarsmenn Veðurstofunnar á að bjóða notendum upp á að hlusta á textaspár á vefnum svo eitthvað sé nefnt.

Aðgengi fyrir alla

Það er nú þannig að hverjum þykir sinn fugl fagur og ekki víst að sá sem vinnur verkið sé dómbær á hversu gott það er. Hins vegar er nær fullvíst að vefur Veðurstofu Íslands er sá aðgengilegasti sinnar tegundar innan Evrópu og ekki ólíklegt að hann sé jafnvel aðgengilegasti veðurvefur í heiminum. Íslendingar standa framlega hvað varðar aðgengi á vefjum á Íslandi sem og rafræna þjónustu, og stefna enn þá lengra. Það eiga allir að hafa aðgang að efni og þjónustu vefja. Það eiga allir að geta gáð til veðurs!

SJÁ ehf. vill nota tækifærið og óska Veðurstofu Íslands til hamingju með glæsilegan og vel heppnaðan vef.

1) WMO- World Meteorological Organization http://www.wmo.ch/pages/members/region6.htm