Viðmótsérfræðingar: Besta starfið 2008

US News og World Report birta á hverju ári yfirlit yfir bestu störfin í síbreytilegri flóru þeirra starfa sem í boði er. Fyrir 2008 fá störf í viðmótsgeiranum (usability og user experience) hæstu einkunn. Hvers vegna? Jú, viðmótssérfræðingar tryggja að vörur, sérstaklega tæknivörur séu auðveldar og þægilegar í notkun.

Hvernig? Jú þeir fylgjast með hugsanlegum notendum og spyrja þá spjörunum úr til að greina þarfir og duttlunga þeirra varðandi vörur sem eru að fara í framleiðslu. Þegar framleiðslu er lokið kemur aftur til kasta samvinnu notenda og viðmótssérfræðinga. Þetta gerir starfsfólk í geiranum eftirsótt þar sem fjöldi flókinna vara, sérstaklega í tæknigeiranum sem settar eru á markað krefjast sérþekkingar.  Þetta á að sjálfsögðu einnig við um vefsíður því þær geta verið flóknar alveg eins og  allir vita.
 
 Stærsti misskilningurinn sem varðar þennan geira er að fjölmargir trúa því að hægt sé að framleiða vörur án þess að það kalla til sérþjálfaða sérfræðinga í viðmóti. Annar algengur misskilningur  snýr að því að viðmótssérfræðingar hanni vörur. Þeir eru ekki hönnuðir heldur milliliðir milli hönnuða og notenda. Þetta eru þó ekki stór atriði þegar horft er til framtíðar og hversu mikilvægur þáttur viðmótssérfræðinga eru almennt í öllum þáttum hönnunar, frá skissu, í gegnum framleiðsluferlið og til endanlegrar vöru.
 
Þeir sem eru starfandi í geiranum geta haft hvers konar bakgrunn. Til dæmis í tölvumálum, sálfræði, mannfræði, bókasafn- og upplýsingatækni, markaðsmálum, heimspeki, gæðastjórnun, vöruþróun og svo mætti lengi telja.  Háskólamenntun er æskileg en mikilvægt er þó að huga að þeim hæfileika fólks að greina vandamál, að hafa óþrjótandi  áhuga á og vera forvitinn um nýjung ar  sem og afstæð og óháð hugsun. Allt mikilvægir hæfileikar í starfi, sérstaklega í viðmótsgeiranum.
 
Lesa má greinina í heild sinni á Usability News