PayOffline – Netverslun án greiðslu á Netinu

Í áhugaverðri grein frá E-Consultancy kemur fram að 18% viðskiptavina á Netinu telja að of áhættusamt sé að greiða fyrir vörur  á Netinu. Það er því mögulegt tækifæri á markaðnum vegna þeirra sem gjarnan vilja greiða fyrir vöru sem þeir sjá á Netinu, annars staðar.

PayOffline er nýtt greiðslukerfi sem sett var á laggirnar í ágúst 2007. PayOffline miðar að því að bjóða viðskiptavinum netverslana að greiða fyrir vöru sem „keypt“ er á Netinu annars staðar en einmitt á Netinu. Settir hafa verið upp 17.000 afgreiðslustaðir í Bretlandi í samstarfi við Alliance & Leicester bankakeðjuna. Greiðslukerfið býður notendum upp á að greiða fyrir vöru á Netinu án þess að leggja út fyrir henni en fara svo á einn af afgreiðslustöðunum og greiða með reiðufé eða debetkorti. Viðskiptavinir prenta út strikamerki þeirrar vöru sem þeir vilja kaupa og greiða svo fyrir vöruna á tilgreindum stað. Að því loknu er varan svo send heim. Svo virðist sem 18% viðskiptavina sem versla á Netinu séu ennþá fullir efasemda þegar kemur að því að greiða fyrir vöruna annars staðar en til afgreiðslufólks við kassa eða í gegnum viðurkennda aðila eins og banka. Allt að 300 verslanir nýta nú þessa þjónustu. Sex mánuðir fóru í að rannsaka hegðun viðskiptavina á Netinu og kom þá í ljós að viðskiptavinir treysta ekki á öryggisráðstafanir Netverslana. Náði rannsóknin yfir 3000 viðskiptavini. Þegar þeir voru spurðir að því hvort þeir myndu vilja greiða fyrir vöruna annars staðar en á Netinu var töluvert hátt hlutfall sem svaraði játandi. Svo virðist sem þessi lausn nái að brúa bilið hjá þeim sem gjarnan vilja kaupa vöru á Netinu en þora ekki af ótta við að greiðslukortaupplýsingar falli í rangar hendur. Þessar niðurstöður eru einnig áhugaverðar í ljósi þess að um 5 milljónir manna í Bretlandi hafa ekki bankareikning og má búast við svipuðu hlutfalli í Bandaríkjunum og víðar.