Niðurstöður nytsemisrannsóknar á 20 ferðavefjum í Bretlandi

Fyrirtækið Webcredibles í Bretlandi birtir oft ansi áhugaverðar greinar á vef sínum. Fyrir ekki svo löngu síðan birtu þeir niðurstöður rannsóknar sinnar á nytsemi 20 ferðavefja (bæði flugfélaga og ferðaskrifstofa). Í þessum hópi voru vefir þekktra fyrirtækja eins og British Airways, Ryanair, Lastminute, Virgin Atlantic, Easyjet og Expedia.


Ansi áhugavert er að skoða þessar tölur og ekki síst ef haft er á bak við eyrað hversu ferðaglaðir Íslendingar eru og hversu mikil netnotkun er hér á landi. Á skalanum 0-100% voru aðeins þrjú fyrirtæki sem fengu meira en 60%. Athygli vekur að flugfélög eins og Ryanair og Easyjet sem reiða sig nánast eingöngu á vefsölu komu illa út eða með undir 50% stiga. Allmargir vefir fyrirtækja eru ekki enn þá farnir að taka mið af þörfum viðskiptavina með því t.d. að nota nýjustu tækni í leitarvélum, bókunarvélum o.fl.
 
Ferðabransinn í Evrópu er talinn vera 49,4 billjón evra að virði. Árið 2009 er áætlað að hann hækki virði sitt upp í 67 billjón evrur. Í Bretlandi eru æ fleiri sem skipuleggja flug sitt og frí á Netinu og samskipti við ferðaskrifstofuna/flugfélagið fara minnkandi. Árið 2007 skipulögðu 31% Breta allt sitt frí og það sem því tengdist á Netinu og 36% skipulögðu mest allt á Netinu. Aðeins 4% notuðu Netið ekkert í þeim tilgangi. Ætla má að tölurnar séu sambærilegar hér á landi. Af þessu má sjá að gríðarlega mikilvægt er fyrir þessi fyrirtæki að vera með vefsíður sínar í lagi, að þær séu notendavænar, að bókunarvélar þeirra séu skýrar og auðveldar í notkun o.s.frv. Sérlega mikilvægt er fyrir vefi sem eru í mikilli samkeppni að standa sig gagnvart notendum og væntingum þeirra.
 
Málið er einfalt, með því að auka notendavæni á þessum vefjum, eykst salan og viðskiptavinir eiga auðveldara með að finna það sem þeir eru að leita að og eru þar með líklegri til að koma aftur eða að minnsta kosti ólíklegri til að hætta við og fara annað.
 
Hægt er að nálgast alla skýrsluna á vef Webcredibles og þarf að hala henni niður sem PDF skjali. Skýrslan er aðgengileg skjálesurum.