Opin gögn

Nýlega var vefsvæðið Opin gögn tekið í notkun og verður áhugavert að fylgjast með því í framtíðinni enda hugmyndin um opin gögn verið þó nokkuð í umræðunni.


Skilgreining á Opnum gögnum tekur

„m.a. á formi gagnanna, endurnýtingarrétti og – möguleikum, gjaldtöku og hlutleysi þeirra m.t.t. stýrikerfa og annarra tæknilausna.“….“Því opnari sem gögn eru, því fjölbreyttari verða notkunarmöguleikar þeirra. Með hindrunarlausu aðgengi að gögnum úr ólíkum áttum má oft með litlum tilkostnaði sjóða saman lausnir sem engan óraði fyrir við gerð gagnanna. Þetta gildir um nánast allar gerðir gagna: Upplýsingar um fyrirtæki, landupplýsingar, orðabókarupplýsingar, flug- og aðrar ferðaáætlanir, upptökur í hljóði og mynd, textasöfn, hagtölur, vísitölur, tilraunaniðurstöður og svo mætti áfram telja.“

Á vefsvæðinu segir einnig:

„“Opin Gögn“ er óformlegt verkefni nokkurra áhugamanna um gagnasöfn og tækifæri sem felast í opnu aðgengi að þeim í formi nýsköpunar og þjóðarhags.

Tilgangur þessa vefsvæðis er í raun tvíþættur. Annars vegar að vekja athygli á opnum gögnum og hins vegar að safna á einn stað skrá yfir íslensk gagnasöfn, lýsa efnistökum þeirra, aðgengi, tiltaka rétthafa og hvernig leyfismálum er háttað.

Notendur vefsins geta breytt og bætt við þessa skrá og eru hvattir til að hjálpa til við uppbyggingu hennar.“

Við hvetjum ykkur til að skoða fyrirbærið og stuðla jafnframt að uppbyggingu opinna gagna.