Vel heppnuð ráðstefna Iceweb 2008

Vel heppnaðri ráðstefnu Iceweb 2008 lauk á föstudaginn og var afar góður rómur gerður að fyrirlesurum og erindum þeirra. Húsfyllir var báða dagana og er ljóst að þó lægð sé yfir landinu og ekki í veðurfarslegum skilningi hefur aldrei verið meiri þörf en nú að líta í átt til skýjanna og spá í þær breytingar sem framundan eru.

Breytingar var einmitt yfirskrift ráðstefnunnar. Ýmsir spennandi fyrirlestrar voru fluttir og má m.a. nefna fyrirlestra Nate Coechley, Kathy Sierra og Hjálmars Gíslasonar (Hjalla) sem voru sérlega fróðlegir að öðrum ólöstuðum. Óneitanlega setur umfjöllunarefni dagsins í dag svip sinn á umræðuefni og þann anda sem svífur yfir vötnum enda væri annað óeðlilegt. Ráðstefnur sem þessar geta virkað sem vítamínsprauta fyrir þá sem þær sækja og vonandi að sem flestir hafi gengið á brott með nýjar hugmyndir í æðum.