Í fimmta sinn liggja fyrir niðurstöður úttektarinnar „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ en tilgangur hennar er að meta opinbera vefi og bera saman, bæði hvernig hver vefur hefur þróast en einnig milli stofnana eða sveitarfélaga. Þróunin sýnir stöðu rafrænnar þjónustu á Íslandi og gefur einnig mynd af hvar við stöndum hvað varðar virkni sem styður við rafrænt lýðræði á opinberum vefjum. Fyrirtækið Sjá viðmótsprófanir sá um framkvæmdina.
265 vefir skoðaðir – sveitarfélögin þurfa að bæta sig
Svipaður fjöldi vefja var tekinn út núna og fyrri ár eða 265 vefir stofnana og sveitarfélaga. Á heildina litið er þróunin jákvæð. Vefir sveitarfélaganna standa hallari fæti en vefir ráðuneyta og ríkisstofnana.
Ánægjulegt er að sjá að þróunin er almennt jákvæð og gott stökk upp á við í þeim þáttum sem eru skoðaðir, nema í nytseminni en þar dettur einkunnin aðeins niður úr 84 stigum í 81 stig núna. Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir tegund stofnana koma ráðuneytin best út og svo ríkisstofnanir. Sveitarfélögin reka lestina en allar tegundir stofnana gera betur í ár en árið 2011.
Stærð fyrirtækja, vefstjórn og árangur
Stofnanir þar sem eitt stöðugildi eða meira sinnir vefumsjón koma best út með yfir 80 stig að meðaltali og fer heildarmat stighækkandi í tengslum við starfhlutfall í vefumsjón. Svipaða sögu er að segja þegar stærð stofnunar er skoðuð í tengslum við árangur, stærri stofnanir koma betur út.
Gátlistar – innihald, nytsemi og aðgengi
Gerð er krafa um að ákveðnar upplýsingar eða innihald sé til staðar á vefjunum. Útkoma á innihaldsgátlistanum er jákvæð. Ráðuneytin koma best út og eru með fullt hús stiga. Niðurstöðurnar sýna að hægt er að tryggja góða útkomu með því að yfirfara vefina vel.
Nytsemi er metin út frá því hvað einkenni notendavæna vefi. Niðurstöður á nytsemi eru nokkuð jafnar. Ráðuneytin eru hæst með 89 stig en aðrar stofnanir eru nær 80 stigum, sveitarfélögin reyndar undir því.
Aðgengi á Netinu vísar til þess að hvaða miklu leyti vefur er aðgengilegur öllum notendum, þar með töldum fötluðum notendum s.s. blindum eða þeim sem ekki geta notað hefðbundin lyklaborð og mús. Mat á aðgengi var með breyttu sniði frá 2011, nú handvirkt að hluta en að hluta var stuðst við sjálfvirk próf. Í sjálfvirkri úttekt var stuðst við Wave toolbar (Webaim) en handvirk úttekt byggði á gátlista sem tekur á helstu þáttum sem huga þarf að svo vefir séu aðgengilegir öllum. Matið byggir á alþjóðlega staðlinum, WCAG 2.0 í samræmi við stefnu stjórnvalda. Mjög ánægjulegt er að vefirnir eru aðgengilegri en árið 2011. Þetta er ekki síst ánægulegt þar sem matið var mun ítarlegra núna en síðast.
Rafræn þjónusta – á leið upp á við
Einkunn á þjónustukvarða byggist á mati á þjónustustigi stofnunar ásamt fjölda og tegunda eyðublaða í boði.
Séu niðurstöður bornar saman við niðurstöður frá 2011 kemur í ljós að allir hafa bætt sig. Engu að síður er þörf á verulegum úrbótum á rafrænni þjónustu hjá öllum, ekki síst hjá sveitarfélögunum sem koma verst út. Ljóst er að stærri sveitarfélögin eru að standa sig nokkuð vel en þau minni koma mun verr út.
Lýðræði – þörf á miklum úrbótum
Metið var hvort á vefjunum væri virkni sem styður við rafrænt lýðræði, en átt er við virkni sem felur í sér að notendum er boðið að tjá sig um málefni stofnunarinnar. Rafrænt lýðræði byggir á því að sérstaklega er óskað eftir tillögum frá notendum varðandi ákveðin mál eða ákvarðanir. En einnig var tekið tillit til þess ef óskað var eftir ábendingum varðandi starfsemi eða þjónustu stofnunar.
Þegar niðurstöður eru skoðaðar má sjá að flest ráðuneytanna bjóða upp á slíka virkni á sínum vefjum eða 87,5% þeirra. Rúmlega 25,5% stofnana sýna slíka virkni á sínum vefjum en tæplega 35% sveitarfélaganna.
Samskipti – facebook, youtube, twitter og vimeo
Að auki var falast eftir upplýsingum um það hvort að stofnanir væru skráðar á samfélagsmiðil og eins hvernig slíkir miðlar væru notaðir væri stofnun skráð.
Samfélagsmiðlarnir eru mest notaðir til skipulegrar miðlunar frétta og upplýsinga frá stofnun en einnig sem gagnvirkur samskiptavettvangur við notendur vefjanna. Einhverjir segjast svo bara vera þarna án þess að nýta miðilinn sem slíkan.
Facebook er langalgengasti miðillinn í notkun en 100 stofnanir eru að nota Facebook. YouTube er einnig töluvert notað en 51 stofnun nýtir þann miðil en 26 stofnanir nota Twitter.
Hvernig má gera betur
Hér hefur verið stiklað á stóru yfir helstu niðurstöður könnunarinnar Hvað er spunnið í opinbera vefi 2013? Ánægjulegt er að að vefirnir eru að þróast í áttina að meiri þjónustu og taka betur mið af kröfum um innihald, nytsemi og aðgengi. Ítarlegar niðurstöður og gögn má finna á vefnum www.ut.is þar sem einnig má finna hjálpargögn og tæki af ýmsum toga. Jafnframt er hægt að skoða niðurstöður einstakra vefja.