Kosningar 2013

Þar sem að kosningar eru handan við hornið er ekki úr vegi að benda á skemmtilegan vef sem ungir athafnamenn settu upp fyrir skemmstu til að hjálpa sér og öðrum í sömu sporum að gera upp hug sinn. Vefurinn er www.kjosturett.is og er safn upplýsinga um stefnu flokkanna í framboði um helstu málefni. Virkilega flott framtak sem eflaust mun gagnast mörgum, ungum sem öldnum.


Notendur og leit

Notendur og leit hafa löngum verið okkur sem hugsum um notendavæni hugleikin. Oft er mikið lagt í það að láta leitarvirkni vefja virka sem best og í samræmi við væntingar notenda. Það er alls ekki auðvelt mál og að mörgu að huga. Tæknin þarf að standa fyrir sínu, eða sjálf leitarvélin, en það þarf líka að haga gögnum á þann hátt að þau finnist.

Gerry McGovern og Jakob Nielsen gera leit og notendur að umfjöllunarefni í nýjustu pistlum sínum, en þar fjallar McGovern um SEO og að það þurfi hanna og haga gögnum þannig að þau finnist. Nielsen gefur aftur á móti notendum falleinkunn í leitarkunnáttu og telur að viðmót og leiðarkerfi þurfi að taka við þar sem leit þrýtur.

Hægt er að nálgast pistlana hér – Jakob Nielsen: Converting Search into Navigation og Gerry McGovern: Quality Search requires quality people.


Unglingar og nytsemi

Í nýjasta pistli sínum fjallar Jakob Nielsen um unglinga, vefiog nytsemi.  Við hjá Sjá erum nokkuð sammála því sem þar kemur fram; unglingar eru mjög tæknivæddir og miklir netnotendur. Hins vegar eru þeir frekar ógagnrýnir á það sem þeir skoða, óþolinmóðir og gera kröfur um flott og nýtískulega hönnun og útlit. Lesið grein Nielsen hér.


Gleðilegt ár!

Gleðilegt nýtt ár – og takk fyrir þau gömlu!

Við byrjum árið á að skoða nýjustu úttekt NormanNielsen Group á bestu innri vefjunum en nýr listi hefur verið gefinn út. Það vekur sérstaka athygli að stór hluti þessara vefja er settur upp í Sharepoint en tekið er fram að það sé þó með mikilli aðlögun og sérsmíði.

Það kemur hins vegar ekki á óvart þegar tekið er fram að þróun á góðum innri vef er langtíma verkefni sem tekur að meðaltali 2-3 ár. Hér má skoða pistil Jakob Nielsen um bestu innri vefina 2013.

 

 


Tillaga að nýrri löggjöf um aðgengi opinberra vefja í Evrópu

Á vef European Disability Forum er fjallað um tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að nýrri löggjöf um aðgengi opinberra vefja, en hún mun tryggja fötluðu fólki aðgengi að upplýsingum og rafrænni þjónustu frá árinu 2015.

Löggjöfin snýr að opinberum vefjum eins og þjónustu sveitarfélaga, skattframtali, atvinnumiðlun, menntun, heilbrigðisþjónustu o.s.frv.  Löggjöfin tryggir fötluðum jafnan aðgang að opinberri þjónustu og upplýsingum til jafns við aðra.

Þetta eru góðar fréttir fyrir alla þá sem láta sig aðgengismál vefja varða og óhætt að fullyrða að um er að ræða stórt skref í átt að jafnræði.

Fréttina má skoða hér.


Ríkisstjórnin samþykkir nýja aðgengisstefnu

Ríkisstjórnin hefur samþykkt nýja aðgengisstefnu fyrir opinbera vefi til að tryggja aðgengi m.a. fyrir blinda, sjónskerta og aðra sem þurfa að nota hjálpartæki við lestur efnis og notkun vefja almennt. Innleiðingu viðmiðanna skal ljúka fyrir 1. janúar 2015.

Aðgengisviðmiðin í nýju stefnunni fylgja staðli alþjóðlegu staðlasamtakanna W3C (WCAG 2.0 AA) sem hefur verið kynntur hagsmunaaðilum og farið í gegnum víðtækt umsagnarferli á vegum innanríkisráðuneytisins. Ráðuneytinu bárust á annan tug umsagna í gegnum wiki-umræðu eða tölvupóst og í þeim öllum kom fram stuðningur við þá hugmynd að gera WCAG 2.0 AA að viðmiði fyrir alla opinbera vefi á Íslandi.

Skoða frétt á vef innanríkisráðuneytisins.


Ferðaprófanir

Í nýjasta pistli sínum fjallar Jakob Nielsen um mikilvægi þess að framkvæma prófanir og að í rauninni sé hægt að framkvæma prófanir hvar sem er, ekki þurfi flotta prófunaraðstöðu. Hann segir það árangursríkast, og hér erum við hjá Sjá hjartanlega sammála honum, að sem flestir (og helst allir) sem koma að viðkomandi vef eða kerfi fylgist með prófununum. Að þessir aðilar fylgist með raunverulegum notendum, það er lærdómsríkt og eykur skilning þeirra á hugsanlegum vandamálum. Við mælum með þessum pistli – en hægt er að lesa hann hér.