Út með punkta fyrir lykilorð!

Stundum hittir Jakob Nielsen nytsemisnaglann á höfuðið. Að þessu sinni er hann að fjalla um lykilorð og hvort að eigi að fela þau þegar þau eru slegin inn í viðmótið. Nielsen segir nei og það  er eitthvað sem við erum alveg sammála honum um. 


 
Flestir þekkja það að slá inn lykilorð t.d. í bankann sinn, á Facebook, í gmail o.fl. og sjá aðeins punkta í staðinn fyrir þá bókstafi og tölustafi sem slegnir eru inn. Eins og Nielsen bendir á, er auðvelt fyrir þá sem eru óheiðarlegir og ætla sér að komast yfir upplýsingar þínar, að gera slíkt. Það er nóg fyrir suma glæpamenn að horfa á lyklaborðið og sjá hvað notandinn er að slá inn og leggja það svo á minnið. Alls kyns njósnabúnaður er einnig til sem greinir hvaða lykla þú ert að slá niður á lyklaborðinu sem sendir upplýsingarnar áfram og einnig hefur komið í ljós að myndavélar hafa verið notaðar svo lítið beri á, sem taka upp lyklaborðsáslátt.  Það er því erfitt að stöðva þá sem hafa huga og getu til, að komast yfir viðkvæmar upplýsingar. Okkur sem förum yfirleitt ekki inn á vefsíður til að slá inn lykilorð, þegar einhver er yfir öxlunum á okkur finnst oft óþolandi að sjá ekki endursvörun af því sem við slógum inn (user feedback). Nielsen bendir einnig á að þegar við sjáum ekki hvort við erum að slá inn lykilorðið rétt, leiðir það til þess að við notum einfaldari lykilorð (til að forðast mistök) sem gerir síðuna óöruggari fyrir vikið.
 
Nielsen nefnir líka í sömu grein að nú sé tími til kominn að fjarlægja “hreinsa” hnappa á umsóknarsíðum eða eins og hann kallar hnappana “eyðileggja vinnuna mína” hnappa. Þar erum við einnig fyllilega sammála. Það er ekki verið að fjarlægja eitthvað sem er nauðsynlegt fyrir notendur og í versta falli geta hnapparnir orsakað gríðarlega gremju meðal notenda sem ætla að ýta á “Senda” en ýta óvart á “Hreinsa” (hver hefur ekki lent í því?).
 
Góðar pælingar hjá Nielsen og alveg þess virði að skoða