Rákumst á snilldar samantekt hjá StyleVein – 20 pick-up línur fyrir vefstjóra og vefhönnuði. Þetta verða allir að lesa.
Er einfaldleikinn málið?
Í sífellt flóknari heimi þar sem upplýsingar streyma að fólki úr öllum áttum má gera ráð fyrir að nú fari fókusinn að færast í átt að einfaldleika. Í tækni- og vefgeiranum má gera ráð fyrir að menn fókusi frekar á núverandi þarfir frekar en að reyna að taka tillit til alls þess sem gæti gerst á næstu mánuðum eða árum. Þetta á sérstaklega við þegar notast er við hugbúnað sem þjónustu (e. software as a service), þá má alltaf bæta við þegar við á.
Hér má sjá skemmtilega umfjöllun á þessum nótum frá Gerry McGovern.
Algengir þröskuldar í vefverkefnum
Á fagblogginu Zurb er fjallað um hvernig best er að komast hjá hindrunum og keyra vefverkefni áfram í sex ágætum ábendingum um þröskulda sem má forðast.
Meðal þess sem þeir nefna er að ekki sé sett skýr lokadagsetning, fullkomnunarárátta og slæma verkefnastjórnun.
Notendur eru óþolinmóðir
Enn og aftur kemst Gerry McGovern að kjarna málsins í nýjasta pistlinum sínum. Notendur eru óþolinmóðir og með ákveðin verkefni í huga þegar þeir heimsækja vefi. Þeir vilja ekki láta leiða sig af leið með auglýsingum og markaðsefni eða tilgangslausu hjali. Hann fjallar um tilraun Google til að breyta upphafssíðu leitarvélarinnar með ekki góðum árangri. Lesið greinina hér.
Bestu innri vefirnir 2011
Jakob Nielsen fjallar enn um innri vefi og hvernig önnur lögmál eiga að hluta við um þau en ytri vefi fyrirtækja og stofnana. Nú kemur hann inn á aukningu í notkun Sharepoint kerfisins (eða sambærilegra kerfa) undir innri vefi og hvernig það getur auðveldað smíði og innleiðingu. Þrátt fyrir það að byggja á sama undirliggjandi kerfinu eru innri vefir samt ólíkir í uppbyggingu og innihaldi enda fer það algerlega eftir eðli og starfsemi fyrirtækis hvernig innri vefurinn er.
Hann auglýsir einnig eftir tilnefningum fyrir samkeppni um besta innri vefinn 2011. Á þinn innri vefur erindi?
Inspired by Iceland
Í ástralska Herald Sun er að finna umfjöllun um átakið Inspired by Iceland. Gaman að sjá að eftir er tekið.
Smellið hér til að sjá vefsíðuna og kynningarmyndband átaksins.
Fullkomin skilaboð
Nú í upphafi sumars er gott að fara yfir það hvernig hin fullkomni „ég er fjarverandi“ tölvupóstur lítur út. Í nýlegri grein á Fastcompany.com er farið yfir möguleikana. Hvernig er best að gera þetta? Kasta öllu á samstarfsfélaga, lofa tafarlausum svörum daginn sem þú kemur aftur eða bara gefa upp farsímanúmerið sitt? Kíkið á greinina hér.
Notendur of jákvæðir?
Við hjá Sjá könnumst vel við það að fylgjast með notendum í prófunum eiga í mestu erfiðleikum með að finna upplýsingar og nota vefi sem er verið að skoða en eru engu að síður mjög jákvæðir þegar upp er staðið og finnst vefurinn jafnvel „fínn og þægilegur í notkun“. Ástæðan er sú að notendur vilja oftast ekki dæma eða vera of neikvæðir í garð þeirra sem eiga vefinn og eins tilhneiging notenda til að kenna sjálfum sér um þegar illa gengur (ég skoða svo lítið svona vefi, ég er svo vitlaus í svona, ég er óvön/óvanur…o.s.frv.). Micheal Wilson kemur inn á þetta í nýlegu bloggi á Uxboot.com. Einmitt þess vegna er mikilvægt að fylgjast vel með notendum og taka niður athugasemdir um það sem ekki gekk sem skildi. Það sem notandinn segir endurspeglar ekki endilega það sem gerðist í raun og veru.
Hönnunarteymið og prófanir
Kostir þess að allt hönnunarteymið og jafnvel stjórnendur komi að og fylgist með prófunum þegar verið er að skoða nytsemi vefja eru langtum meiri en ókostirnir skv. áhugaverðum pistli Jakob Nielsen. Sér í lagi eykur það sátt um niðurstöðurnar og skilning á þeim.
Góðir innri vefir skipta máli
Gerry McGovern kemur enn og aftur inn á mikilvægi þess að innri vefir fyrirtækja séu góðir í nýjum pistli. Lykilatriði til þess að ná því er að hafa skilning og stuðning frá æðstu stjórnendum.